Hafði slæm áhrif á börnin

Leikkonan Jennifer Garner.
Leikkonan Jennifer Garner. AFP

Jennifer Garner segir að það að vera hundelt af ljósmyndurum hafi haft neikvæð áhrif á börn hennar og fjölskyldulíf. Í viðtali við PBS segst leikkonan skilja að ágangur fjölmiðla fylgi skemmtanabransanum, hins vegar hafi það gengið svo langt að það hafði mjög slæm áhrif á börnin hennar.

Garner á þrjú börn með fyrrverandi eiginmanni sínum Ben Affleck, Samuel 8 ára, Seraphinu 11 ára og Violet 14 ára. Hún segir að í rúman áratug hafi fjölskyldan stöðugt verið undir smásjá fjölmiðla og umkringd myndavélum. „Í tíu ár voru að minnsta kosti sex bílar fyrir utan heimili okkar og stundum hátt í tuttugu. Þeir fylgdu okkur í skólann og til heimilislæknis. Maður þurfti alltaf að grátbiðja þá að stíga til hliðar, maður þyrfti að komast inn til læknisins. Maður væri með veikt barn,“ segir Garner.

„Þetta var bara orðið fáránlegt og ljósmyndararnir voru líka alltaf að valda umferðarslysum þar að auki. Ég keyrði kannski yfir á gulu ljósi og það fylgdu 15 bílar á eftir á rauðu ljósi.

Þetta var eins og sirkus hvert sem við fórum. Eitt sinn var dóttir mín að spila fótbolta og ágangur fjölmiðla var svo mikill að það var eins og dýragarður. Aðrar fjölskyldur báðu okkur kurteisislega að koma helst ekki aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert