Sam Smith langar að verða mamma

Sam Smith langar að verða mamma.
Sam Smith langar að verða mamma. AFP

Sam Smith líður betur með sjálft sig eftir að hán kom út úr skápnum sem kynsegin. Hán langar til að eignast börn í náinni framtíð en stefnir þó á að halda áfram að gefa út tónlist. 

Smith opnaði sig í viðtali við Zane Lowe hjá Apple Music á dögunum. Þar talaði hán um að sættast við sjálft sig og raungera tilfinningar sem höfðu verið innra með háni frá því það var barn. 

Hán kom út sem kynsegin í mars 2019 og kýs að nota persónufornafnið hán eða they/them á ensku. 

„Ég hef alltaf verið kynsegin. Mér hefur alltaf liðið eins og mér líður núna. Þegar ég breytti fornöfnunum mínum þá flæktist þetta smá. Mér leið eins og ég þyrfti að vera í hlutverki, alltaf. Þetta tók tíma, þetta tók raunverulega langan tíma,“ sagði Smith. 

Hán hefur áður sagt að hán stefndi á barneignir fyrir þrítugt. Í dag er hán 28 ára gamalt og stefnir á að eignast börn fyrir 35 ára aldurinn. „Mig langar í börn. Ég vil þetta allt. Mig langar að eignast börn. Mig langar að vera með börnunum, fylgjast með þeim þroskast og vera með þeim á hverjum degi. Mig langar að verða mamma. Ég ætla klárlega að gera það á einhverjum tímapunkti en ég á meira eftir í mér. Ég er enn með metnað fyrir tónlistinni,“ sagði hán.

Smith er enn einhleypt og segist vera leita sér að kærasta en það sé erfitt. „Ég ætla að vinna af mér rassgatið þangað til ég verð 35 ára og þá mun ég vonandi finna kærasta. En slíka er hvergi að finna í London. Ég er búið að leita úti um allt. Án gríns, ég er búið að vera í framlínunni í að verða þrjú ár og það er virkilega þreytandi,“ sagði hán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert