Áhuginn á fæðingum kviknaði snemma

Þær Hildur, Laufey og Elfa fræða fólk um barneignaferlið á …
Þær Hildur, Laufey og Elfa fræða fólk um barneignaferlið á Instagram. Ljósmynd/Aðsend

Ljósmóðurnemarnir Elfa Lind Einarsdóttir, Hildur Holgersdóttir og Laufey Rún Ingólfsdóttir standa að Okfrumunni, fróðlegri instagramsíðu um alla þætti barneignaferlisins. Viðfangsefnin eru til dæmis belgjalosun, ófrjósemi, stálmi, úthreinsun, meðgönguvernd, hreyfing í fæðingu, ógleði og svo lengi mætti telja. 

Bekkjarsysturnar eru á lokaári í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands. Þeim fannst tilvalið að nefna síðuna Okfrumuna þar sem okfruman er fyrsta fruman sem myndast úr samruna eggfrumu og sáðfrumu. 

„Okkur fannst vanta aðgengilegt, hnitmiðað og myndrænt fræðsluefni. Við völdum að hafa þetta á Instagram þar sem stór hluti þeirra sem hafa áhuga á barneignaferlinu er á Instagram og einnig þar sem það er þægilegt að skoða efnið í myndformi á þeim miðli,“ segja þær Elfa, Hildur og Laufey Rún. 

Ljósmæðurnar verðandi eiga það sameiginlegt að hafa lengi haft áhuga á fæðingum og öllu sem tengist börnum. Þær eiga ekki allar börn og það voru ekki meðgöngur þeirra sem kveiktu neistann. Þær telja ekki síðra fyrir ljósmæður að hafa ekki gengið með barn. 

Elfa á móður sem er ljósmóðir og erfði líklega áhugann frá henni. 

„Ég ekki börn enn þá. Mér finnst það einnig getað hjálpað mér í að miðla fræðslu því ég hef ekki gengið í gegnum þetta,“ segir Elfa. 

Hildur sagðist ætla að verða ljósmóðir þegar hún yrði stór þegar hún var lítil stúlka. Hildur á tveggja og hálfs árs dóttur sem hún eignaðist í lok hjúkrunarfræðinámsins. 

„Áhuginn á ljósmóðurfræði kviknaði ekki í tengingu við barneignir mínar en jókst mikið við það og ég fór að hafa meiri áhuga á fleiri sviðum innan ljósmóðurfræðinnar sem ég hafði ekki pælt í áður eins og brjóstagjöf, hreyfingu á meðgöngu og eftir fæðingu og fleira. Í byrjun náms var ég oft að miða námið við mína eigin reynslu en eftir því sem ég öðlaðist betri þekkingu og reynslu í náminu er ég hætt því enda kemur mín reynsla öðrum konum í raun ekki við heldur minnir mig á að hver kona er einstök og með sína eigin reynslu,“ segir Hildur. 

Laufey Rún varð snemma forvitin um fæðingarferlið. Sjálf var hún tekin með keisaraskurði sem henni fannst sérstakt þar sem allar vinkonur hennar fæddust um fæðingarveginn. Bræður hennar eignuðust svo börn þegar hún var unglingur og þá jókst áhuginn á meðgöngunni og ljósmóðurstarfið heillaði. 

„Ég á strák sem er fimm ára og eignaðist hann í byrjun hjúkrunarfræðinámsins. Ég stefndi þá á ljósmóðurina en á minni meðgöngu fylgdi ljósmóðurnemi mér yfir meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Mér fannst það dásamleg reynsla þar sem ég upplifði þessa samfellu í gegnum barneignaferlið sem er svo mikilvæg í störfum ljósmæðra. Það er hjálplegt að hafa gengið í gegnum þetta sjálf þar sem öll reynsla aðstoðar hvar sem maður er staddur í lífinu en það er engin meðganga, fæðing né sængurlega eins og önnur og því þarf alltaf að meta hverja og eina fyrir sig.“

View this post on Instagram

Yfirlit yfir rifur eftir leggangafæðingu. Seinna förum við yfir leiðir sem geta minnkað líkur á alvarlegum rifum🤗

A post shared by OKFRUMAN (@okfruman) on Oct 27, 2020 at 6:47am PDT

Eru einhverjar mýtur um fæðingar og barneignaferlið allt of algengar?

„Ekki beint mýtur en það eru alltaf einhverjar upplýsingar sem við vitum ekki endilega hvaðan koma. Svo eru reynslusögur af fæðingum sem ganga kvenna á milli og stundum ala þær á hræðslu og ótta sem þarf ekki að vera til staðar þar sem engin fæðing er eins og önnur. Með aukinni fræðslu eins og Okfrumunni eru konur betur upplýstar, betur undirbúnar og líklegri til að taka upplýsta ákvörðun um sín mál þar sem konan á alltaf að hafa val,“ segja bekkjarsysturnar.

„Við komum til með að setja inn fræðsluefni á Okfrumuna sem fylgjendur okkar vilja sjá meira af. Þar er því kjörinn vettvangur til að koma fram fræðslu um eitthvað sem einstaklingar í barneignaferlinu vilja vita meira um. Við höfum nú þegar spurt fylgjendur um efni sem þá langar að vita meira um og erum að vinna í því eins og stendur, það er að gera fræðslu um þau viðfangsefni. Af öðru þá mætti vera meiri umræða um brjóstagjöfina, kynlíf á meðgöngu og eftir fæðingu, gagnreyndar upplýsingar um verkjameðferðir og þætti sem stuðla að fæðingu án inngripa.“

View this post on Instagram

Í hvaða stellingu fæddir þú? 💛

A post shared by OKFRUMAN (@okfruman) on Oct 15, 2020 at 3:13pm PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert