Var sagt að frysta úr sér egg

Emma Roberts á von á sínu fyrsta barni.
Emma Roberts á von á sínu fyrsta barni. AFP

Leikkonan Emma Roberts á von á sínu fyrsta barni með unnusta sínum Garrett Hedlund. Roberts, sem er einungis 29 ára, var ráðlagt að frysta úr sér egg áður en hún varð ólétt. Allt gekk upp hjá henni þegar hún hætti að skipuleggja framtíðina. 

„Fyrir nokkrum árum komst ég að því að ég hafði verið með ógreinda endómetríósu síðan ég var unglingur. Ég fékk alltaf lamandi krampa og blæðingar, svo slæmar að ég missti úr skóla og seinna þurfti ég að hætta við fundi. Ég minntist á þetta við lækninn minn, sem vildi ekki skoða þetta og sendi mig í burtu af því ég var kannski bara of dramatísk,“ sagði Roberts kasólétt í viðtali við Cosmopolitan. 

„Þegar ég var að nálgast þrítugt hafði ég það á tilfinningunni að ég þyrfti að fara til læknis sem væri kona. Það var besta ákvörðunin. Hún skoðaði mig, sendi mig til sérfræðings. Að lokum kom sú niðurstaða að ég væri ekki of dramatísk. En þá hafði þetta haft áhrif á frjósemi mína. Mér var sagt að ég ætti líklega að frysta egg eða skoða aðra möguleika.“

Roberts sagðist ekki hafa tíma til þess að frysta egg. Skortur á tíma var ekki það eina sem hindraði hana. Hún var hrædd um að komast að því að hún gæti ekki eignast börn. Roberts frysti að lokum egg sín og sagði það hafa verið erfitt ferli. 

„Þegar ég komst að þessu um frjósemi mína var ég eiginlega hissa. Þetta var svo varanlegt og skrítið, mér leið eins og ég hefði gert eitthvað rangt. Ég byrjaði að opna mig við aðrar konur og allt í einu opnaðist heill heimur af samtali um endómetríósu, ófrjósemi, fósturlát og hræðslu við að eignast börn. Ég er svo þakklát að ég var ekki ein í þessu. Ég hafði ekki gert neitt rangt eftir allt saman.“

Leikkonan segir að það hljómi eins og klisja en um leið og hún hætti að hugsa um þetta varð hún ólétt. Þrátt fyrir það vildi hún ekki gera sér of miklar vonir þar sem margt getur farið úrskeiðis á meðgöngu. Hún segir að lítið fari fyrir slíkum fréttum á instagram. Hún hélt leyndarmálinu út af fyrir sig og sagði aðeins fjölskyldu sinni og maka. Hún vildi ekki gera of mikið úr meðgöngunni ef hún gengi ekki upp. „Þessi meðganga sýndi mér fram á að eina planið sem þú getur gert er að vera ekki með neitt plan.“

mbl.is