Átta ára stofnaði fyrirtæki í heimsfaraldri

Aron Moreno stofnaði fyrirtæki svo hann gæti keypt sér snakk …
Aron Moreno stofnaði fyrirtæki svo hann gæti keypt sér snakk með ostasósu án þess að biðja mömmu sína um pening. Skjáskot/GoFundMe

Hinn átta ára gamli Aaron Moreno ákvað að taka málin í eigin hendur í júní síðastliðnum þegar fjölskylda hans átti aðeins 1.600 krónur til að lifa af út mánuðinn og móðir hans missti vinnuna vegna veirunnar. Í dag á fjölskyldan nýtt heimili og nýjan bíl eftir að viðskiptahugmynd Morenos gekk heldur betur upp.

Moreno litli býr með móður sinni og tveimur öðrum fjölskyldumeðlimum í austurhluta Los Angeles-borgar í Bandaríkjunum. 

Hugmynd hans var að selja plöntur í garðinum við heimili sitt til þess að hann hefði efni á að kaupa sér snakk með ostasósu án þess að þurfa að biðja mömmu sína um pening. Hann byrjaði aðeins með átta plöntur en síðan vatt verkefnið upp á sig og hefur hann unnið sér inn ágæta upphæð. 

Moreno litli og fjölskylda hans hafa verið heimilislaus um tíma og þurft að dveljast í skýlum fyrir heimilislausa í gegnum árin. Vinir hans stofnuðu einnig GoFundMe-söfnun fyrir hann og fjölskyldu hans og þar hafa safnast 36 þúsund bandaríkjadalir eða tæpar fimm milljónir króna. Móðir hans er auk þess komin með hlutastarf.

„Ég er hamingjusamari af því við erum ekki í jafn miklum vandræðum og áður,“ sagði Moreno litli í viðtali við ABC.

mbl.is