Fékk nýja sýn á uppeldið í heimsfaraldrinum

Jennifer Lopez ásamt börnum sínum, tvíburunum Emme og Max.
Jennifer Lopez ásamt börnum sínum, tvíburunum Emme og Max. Ljósmynd/General Mills

Tónlistarkonan Jennifer Lopez segist hafa fengið nýja sýn á barnauppeldi eftir að hafa eytt óvenju löngum tíma með börnum sínum í heimsfaraldrinum. 

Lopez og unnusti hennar Alex Rodriguez fóru í sjálfskipaða einangrun með börnum sínum. Lopez á tvíburana Max og Emme sem eru tólf ára og Rodriguez á dæturnar Natöshu og Ellu, sextán og tólf ára. 

„Ég elskaði reyndar að vera heima og borða kvöldmat með börnunum á hverju kvöldi, sem ég hafði örugglega aldrei gert,“ sagði Lopez í viðtali við Wall Street Journal. „Og krakkarnir sögðu mér hvað þau væru ánægð með í lífi okkar og hvað virkaði ekki,“ sagði Lopez. 

Hún segist hafa haldið að lífið og barnauppeldið væri bara fínt þótt allir væru á fullu alla daga. „Maður hélt að allt væri í góðu, en maður er að flýta sér, vinna, fara í skólann og allir í sínum snjalltækjum. Við veitum þeim frábært líf en á sama tíma þarfnast þau okkar. Þau þarfnast okkar á annan hátt. Við þurfum að hægja á okkur og tengjast betur. Og veistu, ég vil ekki missa af neinu,“ sagði Lopez.

mbl.is