Sonurinn gjörbreyttur eftir klippingu

Alicia Silverstone skjalfesti breytt útlit sonar síns á Instagram.
Alicia Silverstone skjalfesti breytt útlit sonar síns á Instagram. Samsett mynd

Clueless-leikkonan Alicia Silverstone er þekkt fyrir óhefðbundnar uppeldisaðferðir. Einkasonurinn fær þó sínu framgengt og á dögunum ákvað hann að fara í klippingu eftir að hafa safnað hári ansi lengi. 

Hárlengd hins níu ára Bears hefur vakið athygli víða um heim og sá Silverstone ástæðu til þess að festa klippinguna á filmu og deila með fylgjendum sínum á Instagram. Hún birti einnig fyrir-og-eftir-myndir af syninum og er vart að sjá að myndirnar séu af sama barninu. 

Silverstone sagði barnið sitt vera að stækka og hún saknaði síða hársins.

„Var þetta hans ákvörðun? Já. Grét ég innra með mér þegar ég horfði á hann í klippingu? Kannski ... en reyndi ég að stoppa hann? Ekki eina einustu sekúndu,“ skrifaði hollywoodstjarnan.

„Ástæðan fyrir því að hann valdi að safna eins lengi og hann gerði var sú að hann elskaði það svo mikið! Hann vildi bara prófa eitthvað nýtt. Ég hef samt á tilfinningunni að hann eigi eftir að safna hári í framtíðinni. Hvað sem verður mun ég alltaf styðja yndislega, umhyggjusama og dýrmæta litla strákinn minn í hverju sem hann tekur sér fyrir hendur.“

mbl.is