Búin að senda sveinka óskalista

Karlotta og Georg eru ólík en hlakka þó bæði til …
Karlotta og Georg eru ólík en hlakka þó bæði til jólanna. AFP

Systkinin í Kensington-höll, Georg, Karlotta og Lúðvík, eru búin að senda jólasveininum óskalista sína fyrir jólin. Börnin eru svo spennt fyrir jólunum að þau eru sögð hafa beðið foreldra sína, Vilhjálm Bretaprins og Katrínu hertogaynju, að setja upp jólatréð. 

„Þetta er uppáhaldstími þeirra,“ sagði heimildarmaður Us Weekly um þau Georg sem er sjö ára, Karlottu fimm ára og Lúðvík tveggja ára. 

Heimildarmaðurinn segir börnin kunna mannasiði og Georg, sem mun að öllum líkindum verða kóngur einn daginn, hagi sér eins og slíkur. Karlotta og Lúðvík séu óþekkari. 

„Georg er heltekinn af þyrlum, flugvélum og sjávarlíffræði. Hann getur ekki beðið eftir að verða nógu gamall til þess að kafa. Karlotta elskar fimleika en byrjaði nýlega að gera krakkajóga. Mörg eldri börn í skólanum gera það og hún kennir Lúðvík hundinn og tréð.“

Vilhjálmur, Katrín og börnin Lúðvík, Georg og Karlotta.
Vilhjálmur, Katrín og börnin Lúðvík, Georg og Karlotta. AFP
mbl.is