Móðgaði tengdó með óléttutilkynningu

Mandy Moore á von á sínu fyrsta barni.
Mandy Moore á von á sínu fyrsta barni. AFP

This is Us-leikkonan Mandy Moore móðgaði óvart tengdamóður sína þegar hún og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn Taylor Goldsmith, sögðu henni að hún ætti von á barnabarni. Hún var þó fljót að fyrirgefa þeim. 

Moore sagði frá því í spjallþætti Kelly Clarkson að þau hefðu sagt móður Goldsmiths fréttirnar á afmælisdegi ömmunnar tilvonandi. Þeim fannst fréttirnar vera hin fullkomna afmælisgjöf. 

Verðandi foreldrarnir mættu með kort og pakka í afmælið. Þau lögðu áherslu á að hún opnaði pakkann fyrst og læsi síðan kortið þar sem þar væri aðalgjöfina að finna. „Til hamingju með afmælið, amma,“ stóð á kortinu. Amman tilvonandi varð móðguð enda var verið að benda á hækkandi aldur hennar í kortinu. Stuttu seinna sýndi Goldsmith móður sinni sónarmynd og þá skildi tilvonandi amman allt og skríkti af gleði. 

Moore og Goldsmith hafa verið sam­an síðan árið 2015 en þau trú­lofuðu sig í sept­em­ber árið 2017. Þau gengu svo í það heil­aga í Los Ang­eles í nóv­em­ber árið 2018. 

mbl.is