Sterkustu börn Íslands hittust í fyrsta skipti

Frederik, Annie Mist, Freyja Mist, Kelsey, Stormur Magni og Hafþór …
Frederik, Annie Mist, Freyja Mist, Kelsey, Stormur Magni og Hafþór Júlíus. Skjáskot/Instagram

Tvö sterkustu börn Íslands hittust í fyrsta skipti um helgina þegar Annie Mist Þórisdóttir og Hafþór Júlíus Björnsson komu saman með börnin sín. 

Annie Mist á dótturina Freyju Mist Ægedius Frederiksdottur sem hún eignaðist með kærasta sínum Frederik Ægedius. Hafþór Júlíus á soninn Storm Magna Hafþórsson sem hann á með eiginkonu sinni Kelsey Henson. 

Freyja kom í heiminn í byrjun ágúst en Stormur í lok september og því aðeins nokkrar vikur á milli þeirra.

„Þessar dúllur hittust í fyrsta skipti um helgina. Ég man enn þá þegar ég tilkynnti um óléttuna og þessi tvö hringdu í mig til að óska mér til hamingju. Ég sagði þeim að ég vildi óska að þau myndu drífa sig og skella einu barni í ofninn og þau sögðu mér að þau væru bara nokkrar vikur á eftir mér. Elska þetta,“ skrifaði Annie Mist undir myndina af fjölskyldunum tveimur. 

mbl.is