„Var dugleg í fyrstu bylgju kórónuveirunnar“

Linda Sæberg er mikil ævintýramanneskja að eigin sögn.
Linda Sæberg er mikil ævintýramanneskja að eigin sögn.

Linda Sæberg er byrjuð að undirbúa aðventuna meðfram þess að vera að afgreiða jólapantanir fyrir Unalome vefverslunina sína og gera fallega leirmuni fyrir LinduLeir. 

Linda á tvö börn; þau Esjar sem er fjögurra ára og Önju sem er fjórtán ára. 

„Ég nota engar sérstakar uppeldisaðferðir heldur hef held ég bara tileinkað mér eitthvað héðan og þaðan. Mest reyni ég þó að gera þetta út frá hjartanu mínu, nota hlýju og virðingu, ásamt reglum og mörkum þar sem þess þarf.“

Er gaman að vera mamma?

„Já, það eru þvílík forréttindi að hafa fengið að upplifa það hlutverk að vera mamma. Ég þakka fyrir það mjög reglulega að fá að fylgja þessum mögnuðu manneskjum sem ég á í lífinu. Að þau hafi valið mig til að vera mömmu sína og að ég fái að heyra þau hlægja og bjóða mér góðan daginn og góða nótt með dásamlegu röddunum sínum.

En almáttugur hvað það er oft líka erfitt og ruglingslegt og þreytandi og allskonar. Það þarf að viðurkenna það líka og leyfa sér að finna það.“

Vissi ekki hversu þreytt hún gæti orðið fyrr en hún varð mamma

Hvað hefur helst komið á óvart?

„Í raun hefur allt komið á óvart. Ég varð mamma 24 ára og var með þeim fyrstu í mínum vinahóp og því vissi ég ekki út í hvað ég var að fara. En ég held í rauninni að þessi ótrúlega sterka og skilyrðislausa ást hafi komið mér mest á óvart. Að elska svona gríðarlega heitt, fast og skilyrðislaust. Að vera svona gríðarlega stolt af einu og öllu og finnast ótrúlega hversdagslegir litlir hlutir það sætasta og fyndnasta sem til er. En líka að vera svona rosalega þreytt, ég vissi ekki hversu þreytt ég gæti orðið fyrr en ég varð mamma.“

Hvernig gengu meðgöngurnar?

„Báðar meðgöngurnar gengu mjög vel. Mér finnst æðislegt að vera ólétt og líður mjög vel andlega á þeim tíma. En ég fékk þó grindargliðnun í lok fyrri meðgöngunnar og var meira og minna í veikindaleyfi vegna ógleði fram á þrettándu viku á seinni meðgöngunni.

En þrátt fyrir það finnst mér allt hafa gengið mjög vel og þær voru bara fullkomnar.“ 

Sér fram á betri tíma

Er búið að reyna á að vera mamma á tímum kórónuveirunnar?

„Já algjörlega! Það er ferlega krefjandi að hafa ekki allt sem við þekkjum til að eyða tímanum og skemmta okkur með. Sem dæmi sundlaugar, kaffihús, húsdýragarð og fleira. Leikskólaverkfall ofan í kórónuveiruna, takmarkanir ofan í sumarfrí var alls ekki góður tími fyrir okkur. Við höfum gert mjög margt skemmtilegt og jafnframt notalegt saman á þessum tíma líka þó við séum orðin þreytt. Það hefur ekkert tekið á fyrir mig að vera mamma með unglinginn minn, en vissulega tekið verulega á að horfa upp á hana í umhverfi sem hún er óvön. Með skertum skóla, lokaðri félagsmiðstöð, takmörkuðum vina-hittingum og engum tómstundum. En við erum þolinmóð og sjáum fram á betri tíma og erum viss um að þetta fari nú að klárast allt saman.“

Linda ásamt börnum sínum tveimur.
Linda ásamt börnum sínum tveimur.

Ertu búin að finna eitthvað skemmtilegt að gera með börnunum undanfarið sem þú ert til í að deila með okkur?  

„Nei alls ekki. Ég ætla bara að viðurkenna það. Ég var rosa dugleg í fyrstu bylgju kórónu-veirunnar að finna eitthvað skemmtilegt að gera. En núna erum við bara í endalausum notalegheitum og reynum bara að komast í gegnum þetta.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert