Gamall karl með ung börn

Hugh Grant á fimm börn sem eru undir tíu ára …
Hugh Grant á fimm börn sem eru undir tíu ára aldri. AFP

Leikarinn Hugh Grant varð sextugur í september. Leikarinn er meðvitaður um aldur sinn og þó svo að það hafi reynt á foreldrahlutverkið síðustu misserin hefur foreldrahlutverkið breytt honum mikið. 

„Ég er gamall maður með mjög ung börn og mjög uppgefna eiginkonu. Svo þetta snýst um að lifa frá einum klukkutíma til annars þegar kemur að barnagæslu,“ sagði Grant í viðtali við Los Angeles Times. Grant á fimm börn tíu ára og yngri. Þar af á hann þrjú börn með eiginkonu sinni Önnu Eberstein sem eru fædd 2012, 2015 og 2018.

„Þegar þú segir að ég hafi breyst sem leikari grunar mig sterklega að þessi börn hafi hjálpað mjög mikið. Af því allt í einu, í stað þess að vera hálfrenglulegur miðaldra golfari, er ég maður með líf fullt af ást. Ég elska konuna mína, ég elska börnin mín. Þau elska mig og allt í einu – sem er frekar óeðlilegt fyrir breskan mann – bý ég yfir fullt af tilfinningum. Eiginlega allt of mörgum. Stundum er erfitt að halda aftur af þeim.“

Hugh Grant og Anna Eberstein.
Hugh Grant og Anna Eberstein. AFP
mbl.is