„Við þurfum að mæta þörfum barna á þeirra forsendum“

Íris Eik er fjölskyldufræðingur og réttarfélagsráðgjafi. Hún hefur starfað lengi …
Íris Eik er fjölskyldufræðingur og réttarfélagsráðgjafi. Hún hefur starfað lengi í fangelsum landsins, við félagsþjónustu og á geðdeildum.

Íris Eik er fjölskyldufræðingur og réttarfélagsráðgjafi. Hún hefur starfað lengi í fangelsum landsins, við félagsþjónustu og á geðdeildum. Í 20 ár hefur hún aðstoðað fólk sem hefur glímt við fíknivanda og geðfötlun auk þess að sinna aðstandendum þeirra. Einnig hefur hún sérhæft sig í meðferð og stuðningi við afbrotamenn og ungmenni með áhættuhegðun ásamt gerendum og þolendum ofbeldis. Í seinni tíð hefur hún í auknu mæli unnið með einstaklingum og fjölskyldum sem glíma við vanda í fjölskyldum eða hjónabandi. Hún er sjálf í sambúð og er er móðir þriggja barna sem eru 16 ára, 6 ára og 8 mánaða.

Samhliða hálfu fæðingarorlofi starfar hún sem framkvæmdastjóri og er eigandi Samskiptastöðvarinnar sem er sérhæfð meðferðarstöð í Skeifunni sem aðstoðar einstaklinga, fjölskyldur, pör eða vinnustaði við að leysa hvers kyns vanda, bæta líðan og samskipti. 

Í framhaldsskóla valdi hún öll fög sem tengdust uppeldis-, félags- eða sálfræði. Hún er félagslynd í eðli sínu. Móðir hennar og ömmur hafa mótað hana mikið sem og störf föður hennar sem starfaði í þrjátíu ár sem fíkniefnalögga sem skýrir áhuga hennar á fíkn og réttarvörslukerfinu. Hún starfaði sjálf einnig um árabil í lögreglunni í Reykjavík sem hún segir góðan grunn. 

Eftirfarandi fimm uppeldisráð eru í hennar anda:

Að hugsa um sjálfan sig

„Númer 1,2 og 3 að hugsa vel um sig. Góð líðan okkar foreldra er einn stærsti þátturinn í að uppeldi gangi vel. Það er grunnurinn að því að við getum mætt börnum út frá þeirra þörfum en ekki út frá okkar ástandi eða líðan. Súrefnisgrímuna á foreldra fyrst, þ.e. nægur svefn, hollur matur, hreyfing, passlega mikil vinna og allt þetta sem við vitum að er gott fyrir okkur. Þá erum við betur í stakk búin að takast á við það sem er krefjandi í uppeldinu. Því uppeldi mun alltaf vera að einhverju leyti krefjandi og ekki er ásættanlegt að sinna því hlutverki alltaf á tómum tanknum, þó svo við þolum það vel að það komi dagar inn á milli þar sem við erum illa upp lögð. Því ef það er undantekningin er líklegra að við komumst klakklaust í gegnum það.“

Stjórnsemi er ekki stuðningur

„Ef barn upplifir mikla stjórnsemi er líklegt að það upplifi skilningsleysi, afskiptasemi og yfirgang frá okkur foreldrum. Slíkt getur ýtt undir óöryggi, vantraust og það upplifi sig sem ómögulegt. Sú staða er afar einmannaleg fyrir barn. Þetta eykur líkur á að gjá myndist á milli foreldra og barns. Yfirleitt má rekja of mikla stjórnsemi til kvíða og álags. Því er mikilvægt að foreldrar séu vel á varðbergi fyrir birtingarmynd stjórnsemi. Við höldum oft að við séum að hjálpa með því að stjórna og stýra öllu en reyndin er sú að ef stjórnsemi er of mikil getur hún verið afar skemmandi afl bæði hvað varðar tengsl milli foreldri og barns auk þess að vera svo kallaður þroskaþjófur þar eð að við gerum of mikið fyrir börnin okkar. Stundum verðum við að sleppa takinu og leyfa börnunum að reka sig á.“

Sýnum börnum áhuga, tölum við þau

„Ekki bara okkar eigin heldur öllum börnum sem við umgöngumst. Við sýnum þeim áhuga með því að tala við þau um þeirra daglega líf, áhugamál, skólann og samskipti þeirra við önnur börn og fullorðna. Það er alltaf hægt að spjalla smá við börn og sýna þeim að við sjáum þau. Dæmi um umræðuefni eru: Við hvern leikur þú mest í skólanum, hvað heitir kennarinn þinn, hvað finnst þér skemmtilegast að læra, ertu í einhverjum tómstundum, hvernig tónlist finnst þér skemmtileg, hvaða tölvuleikur finnst þér skemmtilegur, hvað er uppáhalds dýrið þitt og þess háttar. Það getur gert mikið fyrir litla og stóra heila að fá athygli frá öðru fólki auk þess sem það þjálfar þau í að mynda tengsl og eflir þau í samskiptum. Þegar þau hafa sagt okkur sitt svar þá er gott að svara sömu spurningu og svo koll af kolli. Þetta er ein leið til að þjálfa samtalsfærni hjá börnum, kenna þeim að sýna öðru fólki áhuga, hlusta og tala. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem símanotkun barna er mikil. Það þýðir ekkert að fussa bara og sveigja yfir þeirri þróun. Sýnum börnum áhuga og stelum athygli þeirra eins oft og við getum frá þessum tækjum.“

Gleðin að vopni

„Að vera með börnum getur verið afar krefjandi á köflum. Á þeim stundum eiga foreldrar það til að tapa gleðinni, sem er ósköp skiljanlegt en á sama tíma ekkert skemmtilegt né gagnlegt. Við vitum öll að við eigum að halda ró okkar þrátt fyrir að barn sé orðið stjórnlaust. Ein leið til þess er að reyna að hafa gaman af þessu og halda í gleðina. Það er frekar erfitt að vera pirraður og reiður ef við erum glöð. Það verður allt svo miklu auðveldara og meiri líkur á að krefjandi stundin verði styttri. Reynum að láta þetta gerast sem oftast. Þó svo manni líði stundum að börn séu vísvitandi að taka tryllingskast til þess að rústa deginum okkar, þá er það yfirleitt ekki ætlunin, heldur líður barninu illa á þessari stundu og hefur ekki þroska til að grípa í önnur verkfæri en að taka tryllingskast. Það að við verðum æst og leiðinleg hjálpar ekkert í þessari stundu. Við lögum ekki leiðindi (óhlýðni) með leiðindum.“

Tökum eftir vanlíðan og setjum í orð

„Öll börn munu einhvertímann haga sér illa þar til þau þjálfa smá saman upp færni við að takast á við erfiðar tilfinningar eins og vonbrigði, reiði, pirring eða leiða. Ef við berum kennsl á vanlíðan barns og setjum það í orð fyrir barnið erum við að aðstoða barnið við bera kennsl á vanlíðan og hjálpum því að róa sig niður. Við getum notað setningar eins og ég sé að þú ert leið/ur, vá ég sé að þú ert reið/ur núna, ég skil vel að þig hafi langað í þetta og nú ertu leið/ur. Svo dveljum við hjá barninu og tölum rólega við það þar til það hefur jafnað sig, ef barnið vill ekki að við séum hjá því, er hægt að segja ég verð hérna frammi þú ert velkomin til mín þegar þú villt. Ef þetta er gert eins oft og hægt er aukum við færni barnsins í tilfinningastjórnun. Með hækkandi aldri og meiri þroska má reikna með að barn sem fær svona viðbrögð og aðstoð frá foreldrum nái fyrr tökum á erfiðum tilfinningum sem leiðir af sér að færri tilvik þar sem.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert