Þórólfur fær eigin jólavætti

Hér má sjálf Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og Þórálf eftir Gunnar …
Hér má sjálf Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og Þórálf eftir Gunnar Karlsson myndlistarmann. Samsett mynd

Jólavættaleikur Reykjavíkurborgar er hafinn og nú hefur ný jólavættur bæst í hópinn sem heitir Þórálfur. Nafn húsálfsins er ákveðin afbökun á nafninu Þórólfur og er vætturin byggð á sóttvarnalækninum Þórólfi Guðnasyni miðað við alla þá eiginleika sem hann býr yfir. 

„Hann er afar reglusamur og ákveðinn, enda sér hann um allar sóttvarnir í helli jólasveinanna. Hann á það til að skella sér óvænt til byggða á aðventunni til að næla sér í nauðsynjar og þá er eins gott að passa vel upp á sprittbrúsana sína og grímurnar,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Fjórtán jólavættir er að finna víðs vegar um borgina. Ratleikurinn er snjallvæddur og auðvelt að nálgast hann á heimasíðu Reykjavíkurborgar og á síðunni borgin okkar. Jólavættaleiknum er ætlað að hvetja borgarbúa og aðra gesti til að njóta miðborgarinnar á aðventunni en huga um leið að sóttvörnum eins og Þórálfur. Jafnframt er verið að upphefja íslenska sagnahefð og tengja íbúa borgarinnar við gesti hennar í gegnum samtöl og sögur.

Jólavættir Reykjavíkurborgar.
Jólavættir Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar Karlsson myndlistarmaður teiknaði vættirnar sem hafa lífgað upp á miðborgina á aðventunni frá árinu 2011. Leppalúði, Leiðindaskjóða, Stekkjastaur, Jólakötturinn og fleiri furðuverur verða búnar að koma sér fyrir á húsveggjum víða í miðbænum í desember og úr verður skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna. Þátttakan felst í því að leita uppi vættirnar og svara laufléttum spurningum.

Dregið verður úr svarseðlum 21. desember og vegleg verðlaun í boði fyrir þrjá heppna þátttakendur sem eru með öll svör rétt.

Hægt er að kynna sér málið betur hér.

Hér má sjá húsálfinn Þórálf.
Hér má sjá húsálfinn Þórálf. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is