„Að fæða barn er mjög valdeflandi“

Maren Erla varð móðir nýverið.
Maren Erla varð móðir nýverið.

Maren Erla Einarsdóttir varð móðir í fyrsta skiptið þegar hún eignaðist Máneyju Erlu fyrir fjórum mánuðum, hinn 26. júlí 2020. Maren er að njóta þess að vera með litlu stúlkuna sína, sem er vær og góð að hennar sögn. Hún segir móðurhlutverkið hafa fært sig nær sinni eigin móður, þá sér í lagi þar sem Maren er einstæð móðir líkt og mamma hennar var með hana á sínum tíma.

„Mamma hefur alltaf verið mjög sterk kona og sjálfstæð og ég hef eflaust erft það eðli frá henni. Það er kannski fátt sem undirbýr mann jafnvel fyrir móðurhlutverkið og að eiga góða að.“

Hún segir meðgönguna hafa gengið vel fyrir utan háan blóðþrýsting seinustu vikur meðgöngunnar. 

„Meðgangan var andlega frekar strembin þar sem ég var einstæð. Það voru tveir mögulegir barnsfeður og það gerði þetta miklu erfiðara, en ég gerði mér grein fyrir að barnsfaðirinn gat ekki tekið þátt á neinn hátt. Ég var líka hrædd um að ég fengi einhvern stimpil á mig fyrir það að vita ekki hver pabbinn væri. Raunin er sú að það eru miklu fleiri konur í þessari stöðu en maður gerir sér grein fyrir því það er einhver fáránleg samfélagsleg skömm yfir því að tala um þetta. 

Áður en ég var ólétt var ég búin að ímynda mér að meðgangan yrði allt öðruvísi en hún var, hélt ég yrði betur undirbúin ef það er einhvern tímann hægt að undirbúa sig fyrir þetta stóra verkefni.“

Hvernig var fæðingin?

„Hún gekk mjög vel þrátt fyrir að vera allt öðruvísi en ég var búin að ákveða. Ég var búin að plana að hafa vinkonu mína og mömmu viðstaddar en mátti bara hafa einn viðstaddan vegna kórónuveirunnar og ætlaði að fæða í Björkinni en það gekk því miður ekki af því að blóðþrýstingurinn var orðinn alltof hár og hríðirnar á minna en mínútu fresti innan við klukkutíma frá því þær byrjuðu.

Ljósmóðirin í Björkinni sendi mig þá á Landspítalann til þess að fá mænudeyfingu og eftir örfáa tíma og hálftíma rembing fékk ég fullkomna stúlku í fangið.

Það er mikill heiður að hafa getað fætt barn og er mest valdeflandi hlutur sem ég hef gert!“ 

Hefur eitthvað komið á óvart við það að verða mamma?

„Hvað móðureðlið var sterkt hjá mér. Hélt ég myndi þurfa aðstoð við allt en svo vissi ég mun meira en ég var bjóst við.“

Hefur ástandið í kringum kórónuveiruna sett strik í reikninginn?

„Já algjörlega. Þetta er ekkert eins og ég hafði haldið að fæðingarorlofið mitt yrði, var búin að sjá fyrir mér kaffihús, göngutúra, matarboð, ungbarnasund og ferðalög en í staðinn er maður miklu meira einangraður og hittir bara nánasta fólkið sitt.“

Hvaða uppeldisstefnu aðhyllist þú með barnið þitt?

„Ég hef lesið um og heillast mikið af virðingu og meðvitund í uppeldi (RIE) sem er byggt á þremur hugtökum sem eru virðing, traust og tenging.“

Maren segir að nafnið Máney hafi komið til sín og hafi hún ákveðið það nafn því henni fannst það svo fallegt. Erlunafnið er svo bæði frá henni en einnig barnsföður hennar. Nafnið er að finna í báðum fjölskyldum.

Áttu gott ráð fyrir þær sem eru að verða mömmur?

„Já, það er nauðsynlegt að biðja um aðstoð! Ég brenndi mig á því að biðja lítið um aðstoð og pössun fyrstu þrjá mánuðina og ég var alveg að fara á taugum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert