„Fókusinn var að halda mér og barninu mínu á lífi“

Falleg fjölskyldumynd af Eydísi Ásu, Garðari og Emblu Marín.
Falleg fjölskyldumynd af Eydísi Ásu, Garðari og Emblu Marín. mbl.is/Ragnar Th.

Í nýlegu tímariti Ljóssins má lesa áhugavert viðtal við Eydísi Ásu Þórðardóttur sem hugsaði fyrst og fremst um að lifa af, þegar hún greindist með krabbamein aðeins tuttugu og fimm ára gömul. Þá var hún ófrísk að sínu fyrsta barni og segir að tíminn hafi verið erfiður en að Ljósið hefði fært henni von og vinskap á erfiðum tímum. 

Eydís Ása var 25 ára þegar hún greindist með brjóstakrabbamein í hægra brjósti sumarið 2018. Hún var komin sextán vikur á leið með sitt fyrsta barn þegar henni voru færðar fregnirnar. 

„Æxlið var hratt vaxandi og var „her2" og hormónajákvætt, sem þýðir að það er frekar aggressívt. Nokkrum vikum síðar var ég búin að fara í brjóstnám, 25 ára, og byrjaði svo í lyfjameðferð strax í kjölfarið. Ferlið fyrir mig hefur samt mögulega verið aðeins lengra en venjan er vegna þess að ég var ólétt. Ég mátti til dæmis ekki fá öll lyfin á meðan ég gekk með stelpuna okkar.“

Eydís kláraði virka meðferð í upphafi árs, en þarf enn að fara í mánaðarlega sprautu og tekur töflur. Fyrst og fremst vill hún einbeita sér að endurhæfingunni, sem hún segir á fleygiferð.

„Ég ætla að finna sjálfa mig í þessu ferli. Fá það að minnsta kosti út úr þessu.“

Hún segir brjóstnám óskemmtilega reynslu fyrir allar konur, ekki síst unga konu með framtíðina fyrir sér.

„Ég hugsaði það samt ekki fyrr en seinna. Það eina sem komst að í mínum huga var að mig langaði að losna við þetta æxli, sem var orðið rosalega stórt og ég fann svo mikið fyrir því. Eina sem ég hugsaði um var að ég vildi fjarlægja það og það sem allra fyrst. Ég var eiginlega bara fegin þegar það var tekið. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég fór að hugsa um að ég ætti bara eitt brjóst eftir. Ég held að ég hafi bara ekki haft tíma til að hugsa um þetta. Ég var náttúrulega ólétt og allur fókusinn minn fór í að gera allt til að halda mér á lífi, halda barninu á lífi og reyna að komast einhvernvegin í gegnum þetta allt saman.“

Hér mál lesa viðtalið í fullri lengd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert