„Ég er barnhræddasta kona sem ég þekki“

Edda Björgvinsdóttir er æðislega skemmtileg móðir.
Edda Björgvinsdóttir er æðislega skemmtileg móðir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Leikkonan Edda Björgvinsdóttir segir allt gott að frétta af sér í dag. Hún taki bara einn dag í einu og reynir að huga að sjálfri sér. Hún hefur tekist á við allskonar verkefni í lífinu og er nú komin út áhugaverð matreiðslubók, Uppskriftabók Lillu frænku.  

Edda á margar góðar sögur af sér sem móðir og segir að hún hafi verið eina mamman í skólanum sem spurði barnið sitt hvort hann væri ekki að skemmta sér í skólanum í stað þess að spá í hvernig honum gengi að læra. 

Sonur hennar Björgvin Franz átti afmæli í vikunni og á Edda fallega sögu um það hvernig hann kom í heiminn. 

„Björgvin Franz gleðigjafi kom inn í lífi okkar þegar ég var á síðasta ári í leiklistarskóla, í Nemendaleikhúsi. Hann átti að fæðast í lok fyrstu annar í desember. Við vorum að setja upp verk eftir Terence Rattigan sem heitir „Við eins manns borð“ og lék ég stútungs kerlingu sem klæddist gamaldags kjól sem var þannig í sniðinu að engan grunaði að það væri aukaleikari í sýningunni inni í maga mömmu sinnar. Ég hef aldrei séð jafn pena kúlu á æfi minni, hin börnin mín þrjú voru miklu sýnilegri í móðurkviði. Ég ímyndaði mér strax þá að ég gengi með einstaklega tillitsama mannveru því hann var ekki einungis nánast ósýnilegur alla níu mánuðina heldur leyfði hann mér að frumsýna leikritið þann 8. desember og daginn eftir þegar ég var að leggja af stað að leika sýningu númer tvö þá bankaði hann kurteislega og vildi koma í heiminn. Þá var önnur leikkona búin að læra hlutverkið mitt og hún brunaði niður í leikhús þegar ég hentist upp á fæðingardeild.

Ljósmynd af Eddu Björgvinsdóttur og öðrum nemendum í leiklistarskólanum nokkrum …
Ljósmynd af Eddu Björgvinsdóttur og öðrum nemendum í leiklistarskólanum nokkrum dögum áður en hún fæddi Björgvin. Eins og myndin sýnir var varla að sjá að hún ætti von á barni.

Nú heyrir maður af mörgum leikurum sem verða ótrúlega færir í því að búa til barn og leika upp á sviði. Hvernig fórstu að því?

„Pabbinn, Gísli Rúnar, var auðvitað sá sem bjargaði heimilinu á meðan ég var á fullu í skólanum. Svo átti ég dásamlega foreldra sem hafa alltaf bjargað öllu. En Gísli var að vinna mikið  heima við skriftir á þessum tíma og sá um að elda og þrífa og keyra og sækja í skólann og bara allt heimilishald. Eftir að Björgvin fæddist koma hann með litla ungann til mín í pásum og ég gaf honum brjóst.“

Það þekkja allir Eddu leikkonuna, en hvernig lýsir Edda sér sem móður?

„Ég á tvær undurfagrar og dásamlegar dætur Evu og Margréti og svo á ég yndislega tvo stráka, Björgvin og Róbert. 

Ég er einhver barnhræddasta kona sem ég þekki. Alltaf svo hrædd um að eitthvað komi fyrir þau, þannig fyrsta sem þau muna eftir er mamman sem hrópaði: „Passaðu þig elskan – passaðu þig á bílunum, passaðu þig að detta ekki, passaðu þig að það standi ekki í þér!“

Ég hef ekkert lagast með þetta og sem dæmi var aukagjöfin í afmælispakkanum hans Björgvins núna endurskinsmerki. En ég er ofboðslega háð börnunum mínum og finnst þau öll óvenju skemmtilegt fólk. Ég hlæ ekki eins með neinu öðru fólki eins og þeim og þau eru öll nánir vinir mínir.“

Hvað gerir þú alltaf þegar kemur að börnunum þínum?

„Ég spyr alltaf hvort þeim líði vel og hvort að það sé gleði í lífi þeirra. Eða hvort að þau séu viðkvæm og hvort mamma þurfi sérstaklega að faðma þau og hugga.

Róbert sagði að ég hefði verið eina mamman sem spurði alltaf þegar hann var í Fjölbrautaskóla Garðabæjar, hvort hann hefði skemmti sér vel í skólanum og hvort félagslífið væri gott. Hinar mömmurnar vildu fá að vita hvernig börnunum gengi í náminu.“

Hvað gerir þú aldrei?

„Ég gagnrýni aldrei val þeirra og stend með öllu sem þau ákveða sjálf í lífinu, alveg sama hvað það er. Maður þarf ekki að troða eigin smekk og skoðunum upp á aðrar manneskjur og þar eru börnin manns engin undantekning. Þau eru ekki eign manns eða munir, þau eru sjálfstæðir einstaklingar.“

Hvað er skemmtilegast við að vera mamma?

„Að elska svona skilyrðislaust og að sjá einstaklinga sem maður fæddi af sér blómstra í lífinu og verða að sannkölluðum fyrirmyndum. Tala nú ekki um að sjá hvað þau eru ofboðslega flottir foreldrar sinna barna.“

En það erfiðasta?

„Ég þjáist mest þegar ég sé að þeim líður illa. Það er það versta sem ég veit í lífinu. Ég bara get það ekki. Ef einhver meiðir börnin mín þá breytist ég í mjög grimma refsinorn!“

Áttu góðan brandara fyrir okkur, að rífa okkur upp úr sófanum og kannski í sund á næstu dögum?

„Ég kann því miður enga brandara og ef mér eru sagðar skrítlur þá gleymi ég þeim jafnóðum. Sögur úr lífinu geta aftur á móti verið svo myljandi fyndnar og þær skrifa ég niður og geymi í gleðibankanum mínum. Sérstaklega sögurnar af börnunum í fjölskyldunni. Við vorum að rifja upp svo fallega sögu af Söru Ísabellu barnabarninu mínu þegar hún var í kringum fimm ára aldurinn og ég var að mála mig og fara í sparifötin til að fara í eitthvað boð og þegar ég var að túbera á mér hárið togar hún blíðlega í sparikjólinn minn og segir hlýlega við ömmu skvísu eins og hún kallaði mig: „Ertu núna að fara að leika Grýlu amma mín?“. 

Áttu eitt gott ráð fyrir okkur á þessum undarlegu tímum?

„Takið einn dag í  einu og njótið hvers augnabliks. Leyfið ykkur líka að þjást og gráta þegar þið þurfið.“

Edda mælir að sjálfsögðu einnig með að landsmenn fái sér eitthvað gott að borða yfir hátíðirnar. Sjálf á hún hlýjar og skemmtilegar minningar um heimsóknir til Lillu frænku í Ameríku og allan matinn sem hún eldaði enn upp úr gömlu handskrifuðu húsmæðraskólabókinni sinni þrátt fyrir áratuga búsetu vestanhafs. Edda er að gefa út Uppskriftabók Lillu frænku, núna fyrir jólin svo fleiri geti notið uppskriftanna sem eru einstaklega góðar. 

„Þegar Viðar, sonur Lillu, dró fram gamla fjársjóðinn hennar mömmu og stakk upp á að þau leyfðu fleirum að njóta varð ekki aftur snúið.

Í bókinni má finna andblæ liðins tíma í uppskriftum að prinsessusúpu, makkarónurönd, súkkulaði-triffly, kartöflutertu og mörgu öðru sem sumt er orðið íslensk klassík, annað horfið í gleymskunnar haf.“

Uppskriftabók Lillu frænku á svo sannarlega heima undir jólatrénu á …
Uppskriftabók Lillu frænku á svo sannarlega heima undir jólatrénu á þessu ári.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert