„Ungir feður ekki síður stórkostlegir en ungar mæður “

Ásdís Halla Bragadóttir segir mikilvægt að börn fái umönnun frá …
Ásdís Halla Bragadóttir segir mikilvægt að börn fái umönnun frá bæði mæðrum sínum og feðrum allt frá upphafi. mbl.is/Ásdís

Ásdís Halla Bragadóttir framkvæmdastjóri og rithöfundur er með áhugaverðar vangaveltur er tengjast fæðingarorlofsrétti foreldra. Hún segir mikilvægt að löggjöfin endurspegli þarfir barna og það þurfi að vera hvati fyrir alla feður að vera heima með börnunum sínum eins og mæður hafa gert í gegnum aldirnar. Hún tjáir skoðun sína vegna umræðna á Alþingi um fæðingarorlofslöggjöfina. 

„Ég tel mjög mikilvægt að stór hluti fæðingarorlofs sé bundinn við föður. Það var ekki fyrr en með lengingu fæðingarorlofs árið 2000 að karlar fengu sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs en rannsóknir sýna að það var mikið framfaraskref í tengslamyndun á milli ungra barna og feðra. Staðreyndin er sú að í 50 ár var fæðingarorlof með lögum bundið við konur og þannig festi ríkið formlega í sessi þau kynjahlutverk að konum væri ætlað að vera heima hjá ungum börnum en karlar ættu að vera á vinnumarkaði. Nú á sem betur fer að lengja fæðingarorlof á nýjan leik. En á Alþingi hafa nú komið fram þau sjónarmið að foreldrar eigi að hafa fullkomið val um hvernig fæðingarorlofinu er skipt og að ekki eigi að binda hluta þess við feður. Ég styð valfrelsi einstaklingsins og skil þau sjónarmið en svo rík hefð er fyrir því frá fornu fari að einungis mæður taki fæðingarorlof að allar líkur eru á að einungis mæður haldi áfram nema hluti orlofsins sé bundinn við feður. Það er jafnframt eina leiðin til að vinnumarkaðurinn „sleppi hendinni“ af körlum og hleypi þeim inn á heimilin til að annast nýfædd börn sín. Rannsóknir sýna að tengsl barna við feður sína hafa styrkst verulega eftir að hluti fæðingarorlofs var bundinn við þá. Breyting á því yrði stórt skref aftur á bak.“

Hagsmunir barnsins skipta mestu máli

Hvað finnst þér að við ættum að hafa að leiðarljósi þegar kemur að fæðingarorlofi foreldra?

„Hagsmunir barnsins skipta mestu máli og það eru mikilvæg mannréttindi barna að fá að mynda tengsl við báða foreldra sína.“

Ásdís Halla segir mikla tímaskekkju fólgna í því að telja annað foreldrið hæfara til að sinna barninu fyrstu mánuðina í lífi þess. 

„Líklega skýrist það af því að á öldum áður hafði fólk mestar áhyggjur af því að missa börn sín vegna sjúkdóma og næringarskorts. Upphaf fæðingarorlofs litaðist af þessum frumþörfum og umræðan var sú að móðirin ætti að vera heima því hún væri með mjólkina í brjóstunum. Vissulega skiptir næringin miklu en nú erum ýmsar leiðir fyrir feður til að gefa börnum brjóstamjólk eða næringa ríka þurrmjólk af pela en brýnast er þó að hafa í huga að mikilvægasta tengslamyndun barna á sér stað fyrstu tvö til þrjú árin. Ef móðirin er heima t.d. fyrsta árið þá verður það hún sem þekkir barnið og kann á það. Ef barnið veikist fyrstu árin þá verður það hún sem fer úr vinnunni til að sinna því. Faðirinn hefur ekki sömu reynslu og sjálfstraust í að annast barnið og jafnt og þétt vindur það upp á sig að móðirin sinnir barninu en faðirinn sinnir vinnunni. Þessi verkaskipting hefur mikil áhrif á launamun kynjanna og skapar vítahring sem erfitt er að rjúfa. Það að faðir taki langt fæðingarorlof fær vinnumarkaðinn líka til að viðurkenna hlutverk feðra á heimilinu og að það sé eðlilegt að þeir fari snemma úr vinnu til að sækja börn og séu heima þegar börnin veikjast eða þurfa stuðning þeirra.

Fæðingarorlof er svo miklu stærra mál en þessir mánuðir sem það varir. Ef báðir foreldrar ná að rækta góð og falleg tengsl við barnið á þessu fyrsta og mikilvæga æviskeiði er það eitthvað sem mun hafa áhrif á samband og samskipti foreldra við barnið alla ævi.“

Vísindin og löggjöfin ættu að vinna saman

Ásdís Halla segir ekki spurning að löggjöfin eigi að styðjast við nýjustu rannsóknir á sviði tengslamyndana. 

„Í mínum huga er það engin spurning og það er mikill ábyrgðarhluti að segja lög sem eru jafnvel mikil afturför frá því framfaraskrefi sem stigið hefur verð á Íslandi síðastliðin ár.“

Hversvegna telur þú að ákveðnir hópar vilji að mæður tengist börnum sínum meira en feður?

„Ég er sannfærð um að það er af góðum hug en litast eflaust af íhaldssemi og fyrirfram mótuðum hugmyndum um hlutverk kynjanna sem erfitt er að festa hendur á. Einstaklingar sem þekkja ekki annað en að móðir þeirra sinnti þeim sem ungum börnum og hlúði að þeim þegar þeir voru veikir treysta mæðrum líklega betur vegna þess að þeir sjálfir kynntust ekki öðru. Þessir sömu einstaklingar hafa jafnvel litla sem enga reynslu af því að þeirra eigin feður sinntu þeim í æsku og hafa ekki opnað augun fyrir því að ungir feður eru ekki síður stórkostlegir en ungar mæður.“

Vonar að lenging fæðingarorlofs nái í gegn

Hver er þín reynsla af fæðingarorlofi?

„Við hjónin eigum þrjú börn. Elsti sonur okkar er þrítugur, næstelsti er rúmlega tvítugur og svo eigum við tíu ára dóttur. Því miður var lagasetning og aðstæður í vinnu þannig að við höfum aldri notið langs fæðingarorlofs. Við höfum engu að síður alltaf reynt að vera samstíga í uppeldinu og bæði gefið okkur góðan tíma til að sinna börnunum.  Ég vona að lenging fæðingarorlofs nái í gegn og að það verði tryggt að stór hluti þess verði bundinn feðrum svo að næstu kynslóðir njóti þess þó að við sjálf fáum kannski bara að gera það sem afi og amma.“

En hvað með fjölskyldur þar sem er bara eitt foreldri til staðar?

„Í slíkum tilvikum er eðlilegt að allt fæðingarorlofið sé nýtt af því foreldri sem hefur tök á að sinna barninu. Engar reglur eiga að vera svo stífar að sérstakar aðstæður bitni á velferð barnanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert