Áttaði sig á lesblindu þegar hún eignaðist börn

Gwen Stefani er lesblind.
Gwen Stefani er lesblind. AFP

No Doubt-söngkonan Gwen Stefani er lesblind rétt eins og börn hennar. Hún áttaði sig ekki á því að hún væri lesblind fyrr en hún eignaðist börn. Börnin hennar fá góðan stuðning í skóla en hún mætti ekki eins góðu viðmóti sem barn. 

„Eitt sem ég uppgötvaði við að eignast börn er að ég er lesblind. Allir glíma við eitthvað og þetta er mín glíma. Og mér finnst að mörg vandamál sem ég hef glímt við eða jafnvel ákvarðanir sem ég hef tekið séu afleiðing lesblindu. Af því að núna eru börnin að glíma við þessi vandamál, að sjálfsögðu, þetta er arfgengt,“ sagði tónlistarkonan í viðtali á Apple Music að því er fram kemur á vef People.

Stef­ani á þrjá syni, þá King­st­on 14 ára, Zuma 12 ára og Apollo sex ára, með fyrrverandi eiginmanni sínum Gavin Rossdale. 

Börnin hennar hafa það gott þrátt fyrir lestrarerfiðleikana. Hún segir þau vera með frábæra kennara og lesblindunni fylgi enginn skömm. Börnin skilja að heili þeirra virkar öðruvísi en hjá öðrum. Stefani fékk ekki jafngóðan stuðning í æsku og börn hennar fá í dag. Hún segist hafa staðið sig illa í skóla. 

„Ég var góð stelpa. Ég gerði ekki neitt slæmt. Það var bara mjög erfitt að passa inn í ferkantað mót skólans sem allir áttu að skilja. Og heilinn minn virkaði ekki þannig, hann gerir það ekki enn. Hann virkar á annan hátt, sem er líklega gjöf sem aðrir búa ekki yfir,“ sagði Stefani sem bætti einnig við að hún glímdi við óöryggi vegna erfiðleika sinna.

Gwen Stefani.
Gwen Stefani. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert