Heldur jólapartí fyrir öll börnin í fjölskyldunni

Dolly Parton á engin börn en heldur jólapartí fyrir öll …
Dolly Parton á engin börn en heldur jólapartí fyrir öll börnin í fjölskyldunni. AFP

Tónlistarkonan Dolly Parton á engin börn sjálf en hefur þó mikið dálæti á börnum. Fyrir jólin býður hún öllum börnum í fjölskyldunni sinni í jólapartí og leyfir þeim að gista yfir nótt. 

Parton ræddi um jólahefðir sínar við tímaritið Red. „Ein af mínum uppáhaldsjólahefðum er kökukvöldið. Ég á ekki börn sjálf, en ég býð öllum börnunum í fjölskyldunni heim til mín fyrir jólin. Þau koma á hádegi, fá að gista og fara heim í hádeginu daginn eftir. Ég fæ nokkra vini mína til þess að hjálpa með yngstu börnin og við borðum pítsu og gerum smákökur,“ segir Parton. 

Hún er með lyftu í húsinu sínu sem hún útbýr sem þykjustuskorstein. Síðan sitja öll börnin við þykjustuskorsteinin og hún kemur niður hann klædd sem jólasveinn með gjafir. „Ég er búin að gera þetta í mörg ár og þau hlakka alltaf til þess,“ segir Parton. 

Parton eyðir jólunum með fjölskyldunni og öll stórfjölskyldan hittist á aðfangadagskvöld og borðar saman. „Það er ekki hefðbundinn jólakvöldverður, við fáum okkur kannski lasagne eða kínverskan mat, og allir koma með eitthvað. Við opnum líka alltaf jólagjafirnar á aðfangadagskvöld líka,“ segir Parton en jólahefðir hennar eru heldur ólíkar hefðum annarra Bandaríkjamanna sem opna yfirleitt sína pakka á jóladagsmorgun. 

Á jóladagsmorgun hittist stórfjölskyldan svo aftur í heljarinnar pálínuboði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert