Nafnið ekki strákanafn

Christian Serratos er áberandi eftir að þættirnir Selena voru frumsýndir.
Christian Serratos er áberandi eftir að þættirnir Selena voru frumsýndir. AFP

Nafn leikkonunnar Christian Serratos er áberandi þessa dagana en hún fer með aðalhlutverkið í þáttunum Selena á Netflix. Margir halda að nafnið Christian sé karlmannsnafn en leikkonan segir það vera fyrir öll kyn. Sjálf valdi hún kynlaust nafn fyrir dóttur sína. 

Í nýlegu viðtali við Serratos sagðist spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel aldrei áður hafa hitt konu að nafni Christian. Í leiðinni spurði hann leikkonuna hvort hún þekkti aðrar konur með þetta nafn sem fjöldi karlmanna bera. „Ég hef aldrei hitt aðra sem heitir Christan. Það er eiginlega þess vegna sem ég kann vel við nafnið mitt og vildi að dóttir mín fengi kynlaust nafn.“

Serratos átti í vanda með nafnið þegar hún var yngri og var oft spurð hvort þetta væri ekki strákanafn. „Ekki ef ég ber það,“ langaði hana alltaf til þess að segja. 

Þriggja ára dóttir hennar heitir hinu óvenjulega nafni Wolfgang og er kölluð Wolfie. Hugmyndin að nafninu kom frá Mozart og íhugaði hún að nefna dóttur sína Wolfgang Amadeus en það var of mikið. Stundum kallar Serratos dóttur sína Wolf eða úlf. Hún segir kynlausa nafnið hafa gefið sér styrk og vildi hún það sama fyrir dóttur sína. 

Að lokum sagði leikkonan skrítið að ákveða nöfn fyrir aðra og hún væri opin fyrir því ef dóttir hennar vildi breyta nafni sínu seinna meir. 

Viðtalið við Serratos má sjá í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert