Vill búa til sjötta barnið í útgöngubanninu

Gordon Ramsey.
Gordon Ramsey. AFP

Breski stjörnukokkurinn Gordon Ramsay segir að eiginkona sín vilji reyna að búa til sjötta barnið í útgöngubanninu sem tók gildi í Bretlandi í vikunni. Gordon Ramsay og Tana Ramsay eignuðust fimmta barnið, soninn Oscar, árið 2019. 

„Tana er að biðja um sjötta í útgöngubanninu af því fyrir nákvæmlega tveimur tímum tilkynnti forsætisráðherrann okkar að við værum í útgöngubanni til 15. febrúar,“ sagði kokkurinn í viðtali við bandaríska spjallþáttastjórnandann Jimmy Fallon. 

„Þú verður á fótum lengi að tala við Jimmy. Á morgun reynum við að búa til sjötta barnið,“ sagði Tana Ramsay við eiginmann sinn. Gordon Ramsay virtist reyndar ekki mjög spenntur fyrir barninu enda með barn sem er að verða tveggja ára og nýbúinn að fá sér hvolpinn Trufflu. 

Stjörnukokkurinn er 54 ára en eiginkona hans er er 46 ára. Ramsay-hjónin hafa verið gift síðan árið 1996. Auk örverpisins sem er að verða tveggja ára eiga þau dóttur sem er 22 ára, tvíbura sem eru 21 árs og 19 ára gamla dóttur. mbl.is