„Fannst eins og mér „ætti“ að líða öðruvísi“

Unnur Anna Árnadóttir og eiginmaður hennar Charles Guanci og dóttir …
Unnur Anna Árnadóttir og eiginmaður hennar Charles Guanci og dóttir þeirra Agnes Emma. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Anna Árnadóttir og eiginmaður hennar, Charles Guanci, eignuðust dótturina Agnesi Emmu í ágúst 2017. Unnur Anna varð ólétt í Bandaríkjunum þar sem hún kynntist öðruvísi heilbrigðiskerfi en hún þekkti frá Íslandi. Hjónin leggja áherslu á að blanda því besta úr báðum menningarheimum og talar dóttir þeirra bæði íslensku og ensku. 

Unnur Anna segist elska að vera mamma og það hafi breytt henni 100 prósent til hins betra. 

„Ég les mér mjög mikið til um uppeldi og fylgi fólki á Instagram eins og Kristínu Maríellu á Respecful Mom sem tileinkar sér virðingaríkt uppeldi. Það fylgir því mjög mikil sjálfsvinna og stanslaus sjálfskoðun að ala barnið sitt upp á virðingaríkan hátt og mér finnst ég hafa lært mikið um mig sjálfa og hvernig ég get bætt mig á ýmsan hátt. Ég er þolinmóðari og rólegri en ég var og ég hef einnig lært að sætta mig við mína galla og lært að vinna með þá. 

Móðurhlutverkið varð einnig til þess að ég fann hvað mig langar virkilega að gera í lífinu. Þegar Agnes Emma fæddist fór ég svo eins og svo margar mæður að fá mikinn áhuga á að taka myndir af henni. Það varð til þess að ég fór að hafa meiri og meiri áhuga á ljósmyndun almennt. Þegar ég hélt svo áfram í náminu í Atlanta þá skipti ég um grein og fór úr innanhúsarkitektúr yfir í BFA-nám í „commercial photography“ og fann mig alveg þar,“ segir Unnur Anna um hvernig móðurhlutverkið breytti henni. 

Unnur Anna fann hvaða hana langaði til að gera í …
Unnur Anna fann hvaða hana langaði til að gera í lífinu þegar hún varð móðir. Ljósmynd/Aðsend

Lítið talað um meðgönguþunglyndi

Unnur hefði viljað meiri fræðslu um andlega líðan á meðgöngu. Mikil vitundavakning hefur verið síðustu ár um fæðingarþunglyndi en ekki hefur jafn mikil áhersla verið lög á andlega heilsu verðandi mæðra. 

„Ég hefði viljað meiri fræðslu um andlega líðan á meðgöngu. Mér fannst mikil umræða í gangi um andlega líðan eftir fæðingu og um fæðingarþunglyndi – en mér fannst lítið talað um meðgönguþunglyndi. Það var eitthvað sem ég upplifði og á þeim tíma fannst mér ég vera ein í heiminum. Ég upplifði mikla skömm af því mér fannst eins og mér „ætti“ að líða öðruvísi og vera spennt.“

Hvernig var meðgangan?

„Meðgangan var ekki draumameðganga ef það má orða það svoleiðis. Það var ekki alveg á planinu að verða ólétt. Ég var nýflutt til Los Angeles í nám og ætlaði að vera þar næstu árin. Barnið var samt mjög velkomið og ég vissi alveg um leið að þetta barn yrði elskað og ég myndi gera mitt allra besta sem mamma. En ég fékk líka rosalega yfirþyrmandi tilfinningu að ég væri að valda fólki í kringum mig vonbrigðum, eins skrítið og það kann að hljóma. Ég kom heim um jól og fékk staðfest að ég væri ólétt og fór svo aftur út en þá til Atlanta í janúar þar sem Charlie bjó og byrjaði í nýjum háskóla.

Ég ældi í 18 vikur allan sólarhringinn og vaknaði oft tvisvar til þrisvar á nóttunni til að æla. Ég reyndi að komast í mæðraskoðun úti til að fá aðstoð. En kerfið í Bandaríkjunum er ekki alveg eins og maður venst hér heima. Ég svaraði alltaf bara hreinskilningslega að ég ætlaði að eiga heima á Íslandi en vantaði mæðravernd að 32. viku. En af því að mestu peningarnir fyrir fæðingarlæknana (sem sjá um alla mæðraverndina) koma í fæðingunni sjálfri þá reyndist mjög erfitt að finna lækni sem var til í að fá mig sem sjúkling. Það var því ekki fyrr en að tengdamóðir mín úti hringdi fyrir mig í lækni og sagði henni að ég ætlaði að fæða barnið í Bandaríkjunum að ég fékk loksins lækni. Tengdamóðir mín sagði mér svo að það væri ekki ólöglegt að skipta um skoðun, sem reyndist alveg rétt.

Mæðgurnar Agnes Emma og Unnur Anna.
Mæðgurnar Agnes Emma og Unnur Anna. Ljósmynd/Aðsend

Ég var mikið ein á meðgöngunni af því Charlie var að vinna mikið. Ég var í háskóla fullum af 18 ára krökkum sem voru alls ekki að hugsa um barneignir. Skólinn sjálfur gerir heldur alls ekki ráð fyrir að nemendur séu foreldrar eða eignist börn í námi þannig mér leið alltaf eins og ég hefði gert eitthvað rangt og átti erfitt með að eignast vini. Ég upplifði fleiri erfiðleika á meðgöngunni og undir lok vorfjórðungs í skólanum hjá mér var kvíðinn búinn að taka öll völd. Ég þorði varla út og fór bókstaflega bara út til að fara í skólann og svo aftur heim. Ég er mjög þakklát vinkonum mínum sem gerðu sér langa ferð til Atlanta til að vera til staðar fyrir mig og ég fór heim til Íslands með einni þeirra þegar ég var komin 32 vikur á leið. Ég fékk sálfræðiaðstoð um leið og ég kom til Íslands sem bjargaði mér algjörlega og eftir fæðingu var þessi mikla vanlíðan sem betur fer horfin.

Mér finnst mjög mikilvægt að tala um þessa vanlíðan sem ég upplifði á meðgöngu því ég er viss um að það eru margar fleiri óléttar konur sem upplifa þetta líka og það er mikilvægt að fólk viti að þetta er ekki eitthvað sem maður stjórnar og þetta hefur ekkert að gera með hvernig móðir maður er eða verður.“

Vanlíðanin hvarf eftir fæðingu dótturinnar.
Vanlíðanin hvarf eftir fæðingu dótturinnar. Ljósmynd/Aðsend

Fæðingin tók óvænta stefnu

Unnur Anna segir að fæðingin hafi verið löng og komið á óvart. Þó svo að fæðingin hafi farið öðruvísi en hún bjóst við þykir henni mjög vænt um þennan sólahring sem fæðingin tók. 

„Ég missti vatnið aðfaranótt 14. ágúst og var komin upp á sjúkrahús um morguninn. Við tóku margir tímar af verkjum sem ég réð ágætlega við til að byrja með. Svo ágerðust verkirnir og ég hætti að fá pásu á milli hríða. Þá bað ég um mænudeyfingu en svæfingalæknirinn var akkúrat upptekinn þannig ég beið í tvo klukkutíma eftir mænudeyfingunni sem liðu eins og þrjú ár.

Ég var svo kvalin að ég var hætt að geta hugsað á ensku svo að Charlie gæti skilið mig þannig það var gott að hafa mömmu þarna með sem gat þýtt fyrir hann. Ég fékk svo loksins mænudeyfingu og leið þá mun betur. Um níuleytið um kvöldið var ég enn bara með sex í útvíkkun og Agnes hafði lyft höfðinu ofar og þau héldu að hún hefði snúið sér eitthvað. Ég man að um tíuleytið hugsaði ég að hún kæmi þá bara á settum degi 15. ágúst – en rétt eftir það þá ákváðu ljósmóðirin og fæðingalæknirinn að af því að hjartslátturinn hennar var farinn að stressast að best væri að fara í keisaraskurð.“

Unnur Anna fór í keisaraskurð.
Unnur Anna fór í keisaraskurð. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Anna segir að það hafi verið áfall að heyra það að hún þyrfti að fara í keisaraskurð og fékk róandi lyf. 

„Mér var svo rúllað inn á skurðstofu og Agnes Emma sótt í heiminn. Ég brást ekki vel við lyfjunum sem ég fékk og var því liggjandi á bakinu með hendurnar fastar, ælandi til hliðar, ekki kannski mín glæsilegasta stund. En nokkrum mínútum seinna, 14. ágúst klukkan 23:07 fæddist Agnes Emma, fullkomlega heilbrigð og þá gleymdist allt. Síðan þá hefur allt að mestu gengið vel og Agnes hefur bókstaflega verið draumabarn frá fæðingu.“

Fluttu aftur til Íslands í kórónuveirufaraldrinum

Kom eitthvað á óvart við móðurhlutverkið?

„Já það kom mér á óvart hvað allt kom einhvern veginn náttúrulega. Hún bara fæddist og þá tók móðurhlutverkið við og allt í einu gat ég varla ímyndað mér hvernig lífið var áður en hún fæddist. Það tók mig líka smá tíma að átta mig á því að það er í lagi og bara mjög mikilvægt að hugsa líka um sjálfan sig. Ég hef dansað og kennt dans í tíu ár og ég hélt eiginlega að það væri bara búið eftir að ég varð ólétt en svo kom auðvitað bara allt annað í ljós. Dansinn er svona „me time“ og ég hef sjaldan dansað jafn mikið og eftir að ég varð mamma, sem gerir mjög mikið fyrir mig og fjölskylduna mína alla.“

Dóttirin Agnes Emma fær að upplifa það besta frá Bandaríkjunum …
Dóttirin Agnes Emma fær að upplifa það besta frá Bandaríkjunum og Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Líf fjölskyldunnar er töluvert púsluspil þar sem eiginmaður Unnar Önnu starfar í Bandaríkjunum. Agnes Emma kemur alltaf fyrst og hafa foreldrarnir lært að skipuleggja sig vel eftir að dóttir þeirra kom í heiminn.

„Aðstæður okkar eru frekar flóknar af því Charlie er frá Bandaríkjunum og vinnur þar líka og það má eiginlega segja að við höfum stanslaust verið að endurhugsa forgangsröðina og skipulagið okkar eftir að Agnes fæddist. Charlie vinnur í kvikmyndabransanum í Atlanta og vinnur oft mikið og lengi í einu og er þá minna til staðar. Það hafa komið sjö mánuðir þar sem við sáum hann ekkert og tvisvar fimm mánuðir. Það varð til þess að ég tók mér lengri pásu í skólanum úti en ég hafði planað og var áfram á Íslandi til að gefa Agnesi Emmu stöðugt umhverfi. Ég fór svo að vinna hjá Menningarfélagi Akureyrar þegar Agnes var eins árs og var líka að kenna og æfa dans og það krafðist auðvitað mikillar skipulagningar að láta þetta allt saman ganga upp á meðan Charlie var að vinna úti. Við bjuggum hjá mömmu og pabba og þau eru búin að vera okkar helsta stuðningsnet.

Svo fannst okkur vera rétt ákvörðun fyrir okkur þegar Agnes var tveggja og hálfs árs að flytja út svo ég gæti klárað námið og hún upplifað Bandaríkin sem hennar heimili líka. Við náðum að vera þar í níu mánuði en fluttum svo aftur heim út af kórónuveirunni og ástandinu í Bandaríkjunum af því okkur fannst það öruggara fyrir Agnesi. Þegar við komum aftur heim fundum við bara hvað okkur líður betur með að ala hana upp á Íslandi þannig við stefnum ekki á að flytja aftur út á næstunni. Charlie flakkar til Bandaríkjanna til að vinna verkefni og ég stefni á að klára námið mitt í fjarnámi eða í nærumhverfi. Svo tökum við bara stöðuna aftur þegar aðstæður breytast.“

Charlie, Agnes og Unnur Anna eru ánægð með lífið á …
Charlie, Agnes og Unnur Anna eru ánægð með lífið á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Eitt skref í einu

Hvernig móðir vilt þú vera?

„Ég vil vera til staðar fyrir börnin mín. Ég vil ala þau upp í umhverfi sem þeim líður vel í og þar sem þau eru óhrædd að vera algjörlega þau sjálf og við að sýna tilfinningarnar sínar hverjar sem þær eru. Ég vil líka vera ófullkomin móðir sem gerir mistök og viðurkennir þau fyrir framan börnin sín. Það hefur verið mikil áskorun en ég held að það sé mikilvægt fyrir börnin að sjá foreldra sína gera stundum mistök svo þeim líði vel með þau mistök sem þau munu gera í framtíðinni og upplifi ekki skömm fyrir þau heldur læri frekar af þeim. Ég og við Charlie viljum líka leyfa börnunum okkar að upplifa margt og ferðast og sjá heiminn. Við höfum auðvitað ferðast mikið með Agnesi til Bandaríkjanna en hún hefur farið í 36 flug og komið til nokkurra annarra landa í Evrópu líka.

Ég vil líka hafa gaman af móðurhlutverkinu. Við Charlie reynum alltaf að sjá hlutina frá sjónarhorni Agnesar og reynum að vera dugleg að brasa og leika þar sem hún fær svolítið að leiða leikinn, hvort sem það er í hversdagslegum hlutum eins og að fara í búðina eða taka út úr uppþvottavélinni og líka þegar við leikum úti. Það er svo gaman að sjá og upplifa hluti í gegnum hana – það gerir allt svo miklu skemmtilegra.“

Nýttir þú þér bumbuhópa eða mömmuklúbba?

„Já ég var í facebookhóp fyrir ágúst 2017 mömmur og fannst ég læra mikið af reynslumeiri mæðrum. Ég hitti einu sinni konur sem áttu börn á sama aldri og ég á Akureyri en svo vorum við mæðgur svo mikið á flakki milli landa að ég náði ekki meiru en það.“

Besta ráð sem þú átt handa ný bökuðum eða verðandi mæðrum?

„Ég hugsa að besta ráðið sem ég fékk hafi verið frá mágkonu minni. Hún sagði mér að móðurhlutverkið væri bara eitthvað sem maður gerði. Barnið kemur bara og maður tekur alltaf bara eitt skref í einu og gerir þetta bara. Ég hef tekið þetta svolítið með mér í gegnum lífið eftir þetta. Ef ég hef þurft að ferðast ein með hana eða gert eitthvað sem mér finnst yfirþyrmandi og erfitt, þá hugsa ég alltaf bara: „Ókei, þetta er bara eitthvað sem ég geri. Ég geri aldrei meira en bara eitt skref í einu.“

View this post on Instagram

A post shared by Unnur Anna (@unnuranna)

mbl.is