Barnastjarna vill klippa Trump úr Home Alone 2

Macaulay Culkin gerði garðinn frægan sem leikari í Home Alone.
Macaulay Culkin gerði garðinn frægan sem leikari í Home Alone. Skjáskot/Instagram

Barnastjarnan fyrrverandi Macaulay Culkin styður þá hugmynd að klippa Donald Trump forseta Bandaríkjanna úr fjölskyldumyndinni Home Alone 2 en Culkin fór með aðalhlutverkið. Ýmsar hugmyndir hafa birst á Twitter og virðist Culkin meðal annars til í að koma fram í myndinni í stað Trumps. 

Culkin skrifaði athugasemdir við tvær færslur þar sem hugmynd um að fjarlægja Trump úr myndinni voru viðraðar. „Bravó,“ skrifaði barnastjarnan um brot sem twitternotandi birti þar sem Trump hafði verið klipptur úr myndinni. „Selt,“ skrifaði Culkin líka við undirskriftalista á twitter þar sem þess var krafist að myndbrot af fertugum Culkin væri notað í stað myndbrotsins með Trump. 

Chris Col­umbus, leik­stjóri kvik­mynd­ar­inn­ar Home Alone 2: Lost in New York, sagði í vetur að upp­haf­lega hefði Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti, þá viðskiptamaður, ekki átt að vera í kvik­mynd­inni. Hann hefði hins veg­ar troðið sér inn í hana gegn því að hót­el hans yrði notað.

Trump var klipptur út úr útgáfu af myndinni sem sýnd var í ríkissjónvarpi Kanada árið 2019. Talsmaður CBC sagði að breytingarnar hefðu átt sér stað árið 2014, nokkru áður en Trump hóf afskipti af stjórnmálum, og gert til þess að búa til auglýsingapláss. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert