Nefndi soninn eftir látnum bróður sínum

Hunter Biden nefndi soninn eftir bróður sínum.
Hunter Biden nefndi soninn eftir bróður sínum. AFP

Hunter Biden, sonur Joes Bidens Bandaríkjaforseta, nefndi yngsta son sinn Beau eftir bróður sínum Beau sem lést úr krabbameini í heila árið 2015.

Soninn eignaðist Hunter með eiginkonu sinni Melissu Cohen í fyrra og er hann fyrsta barn þeirra saman. Hann er hins vegar fimmta barn föður síns en hann eignaðist þrjár dætur með fyrstu eiginkonu sinni, Kathleen Biden. Hann á eitt barn utan hjónabands en barðist lengi gegn því að barnið væri hans. Að lokum kom í ljós að hann var faðir barnsins og hafa þau náð sátt um meðlagsgreiðslurnar. 

Hunter hafði ekki gert nafn yngsta sonar síns opinbert fyrr en á innsetningarathöfninni í gær en þegar blaðamenn fengu lista yfir nöfn þeirra sem myndu fljúga um borð í sömu vél og forsetinn Joe Biden ráku þeir auga í nafnið Beau Biden. Þá lá ljóst fyrir að litli drengurinn hafði fengið nafn föðurbróður síns.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hunter nefnir börn sín eftir látnum systkinum sínum. Elsta dóttir hans heitir Naomi, eftir systur hans sem lést í bílslsysinu sem hann, móðir hans og Beau eldri lentu í fyrir jólin 1972. 

Naomi Christina var aðeins eins árs þegar hún og móðir hennar, Neilia Hunter Biden, létust í bílslysinu.

Dr. Jill Biden, Hunter Biden með Beau litla í fanginu …
Dr. Jill Biden, Hunter Biden með Beau litla í fanginu og Melissa Cohen á minningarathöfn um Beau Biden eldri á þriðjudag. AFP
mbl.is