Sökuð um að hafa yfirgefið börn sín

Zheng Shuang hefur verið sökuð um að yfirgefa börn sín.
Zheng Shuang hefur verið sökuð um að yfirgefa börn sín. Skjáskot/Instagram

Tískuvörumerkið Prada hefur sagt kínversku leikkonunni Zheng Shuang upp störfum eftir að hafa fengið inn á borð til sín fréttir af því að hún hafi yfirgefið börnin sín. Leikkonan hefur verið gagnrýnd harkalega í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum eftir að fyrrverandi sambýlismaður hennar greindi óljóst frá fréttunum. BBC greinir frá.

Talið er að Shuang hafi notast við staðgöngumæður til að eignast börnin, en hún hefur aldrei sést ólétt opinberlega á síðustu árum. Staðgöngumæðrun er ólögleg í Kína. 

Fyrr í þessari viku greindi Zhang Heng, fyrrverandi sambýlismaður hennar, frá því á samfélagsmiðlinum Weibo að hann hefði dvalið erlendis um nokkurt skeið. Hann sagðist vera að hugsa um tvær ungar og saklausar manneskjur. Færsla hans vakti fljótt athygli og erlendir miðlar fóru á stúfana og fundu fæðingarvottorð barnanna sem fæddust síðla árs 2019 og snemma árs 2020. 

Shuang var skráð móðir þeirra á fæðingarvottorðunum. 

Sögusagnirnar um mögulega ólöglega notkun á staðgöngumæðrun þykja staðfestar eftir að símtölum milli Shuang og föður hennar var lekið. Þar heyrist hún deila þeim áhyggjum með föður sínum að það sé of seint að rjúfa meðgöngurnar. Þá má einnig heyra föður Shuang leggja til að gefa börnin til ættleiðingar. 

Shuang hefur svarað fyrir sig opinberlega og segir að símtölin sem lekið var hafi aðeins verið nokkurra mínútna klippa úr sex klukkustunda löngu símtali. Hún sagðist líka standa við allt sem hún sagði en ekki er vitað nákvæmlega í hvað hún vísar með þeim orðum. 

Ríkissjónvarpið í Kína gaf út harðorða tilkynningu um mál Shuang þar sem tekið var fram að hvers konar staðgöngumæðrun væri ólögleg í Kína og að það að yfirgefa börn sín eða vanrækja þau væri litið alvarlegum augum. 

Kínverski vefmiðillinn The Global Times vitnaði hins vegar í þekktan lögfræðing í Kína sem sagði að þótt staðgöngumæðrun væri ólögleg í Kína væri ekki ólöglegt fyrir fólk að sækja þjónustuna í öðrum löndum þar sem hún er lögleg. Lögfræðingurinn sagði hins vegar að kínversk lög næðu yfir vanrækslu barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert