Strangar uppeldisaðferðir Ramsays

Gordon Ramsay og sonurinn Oscar.
Gordon Ramsay og sonurinn Oscar. skjáskot/Instagram

Gordon Ramsay og kona hans Tana eiga von á sínu sjötta barni á þessu ári. Gordon Ramsay er almennt harður í horn að taka  líka við uppeldi barna sinna. Hann hefur í gegnum tíðina mikið tjáð sig um hvernig hann nálgast föðurhlutverkið og breski fjölmiðillinn The Mirror tók saman hvert gullkornið á fætur öðru.

Reddar þeim ekki vinnu

Mörgum fannst fulllangt gengið þegar Ramsay lýsti því yfir að hann hefði bannað börnum sínum að sækja um vinnu hjá sér. 

„Ég er strangur, sanngjarn og mun aðstoða börnin við að ná frama en þar endar það. Ekkert rugl. Margir gagnrýna mig fyrir að vera hreinskilinn en ég bara hef engar áhyggjur af þessari snjókorna-kynslóð. Ég ræð ekki mín eigin börn í vinnu. Ég vil ekki að starfsfólkið haldi að það megi ekki skamma börnin því þau eru börnin mín. Vilji þau starfa í þessum bransa þá verða þau bara að finna annan kokk, læra eitthvað nýtt og koma til baka með eitthvað sem getur betrumbætt fyrirtækið,“ sagði Ramsay í viðtali 2019.

Enginn arfur til barnanna

Ramsay vakti mikla athygli fyrir að lýsa því yfir að hann ætlaði að gera börn sín arflaus. 

„Það mun ekkert fara til þeirra. Það er ekki illa meint heldur bara til þess að spilla þeim ekki,“ sagði Ramsay. „Við hjónin höfum þó samþykkt að þau fái 25% útborgun inn á íbúð. Ekki alla íbúðina.“

Fljúga á almenningsfarrými

Ramsay lætur börnin sitja á almenningsfarrými þegar fjölskyldan ferðast saman. Á meðan sitja hann og eiginkona hans á fyrsta farrými. Hann réttlætir það þannig að börnin hafi ekki unnið næstum eins mikið og hann til þess að hafa efni á fyrsta farrými. 

„Ég segi flugþjóninum að tryggja að börnin trufli okkur ekki meðan á flugi stendur. Ég vil sofa. Ég lagði hart að mér til þess að sitja svona nærri flugstjóranum og maður kann betur að meta slíka hluti þegar maður hefur unnið fyrir þeim.

Ég verð að vera sannur gagnvart börnunum. Svona ung börn þurfa ekki allt þetta pláss. Þau hafa bara sinn iPad. Svo má hugleiða hvað er hægt að gera fyrir peninginn á áfangastaðnum í stað þess að eyða honum í að átta ára börn sitji á fyrsta farrými.“

Ekki vera grænmetisæta

Gordon Ramsay er ekki mjög hrifinn af grænmetisætum. Hans stærsti ótti er að eitthvert barna hans tilkynni einn daginn að það ætli að gerast grænmetisæta.

„Það væri martröð ef börnin kæmu til mín og segðust vera grænmetisætur. Ég myndi gefa þeim raflost.“

Bannað að blóta

Ramsay er ekki sá prúðmæltasti en þrátt fyrir það bannar hann börnum sínum að blóta.

„Svona er tungumálið í mínum bransa. Börnin vita það og þau blóta ekki. Þau ganga ekki um og kalla f-orðið.“

Strangur þegar kemur að stefnumótum

Gordon vill einnig hafa eitthvað um það að segja með hverjum börnin fara á stefnumót. Hann er góður vinur Beckham-hjónanna og segir ekki koma til greina að dætur hans gefi sonum þeirra hýrt auga.

„Ef Holly myndi segja eitthvað á borð við „Ég og Brooklyn ætlum að ...“ – þá bara nei!“

Vasapeningar

Ramsay vill kenna börnum um virði peninga. Það að vera ríkur sé ekki markmið út af fyrir sig en Ramsay ólst upp við fátækt í Glasgow. Börnin fá vasapening og þurfa að borga sjálf fyrir föt, farsíma og að koma sér á milli staða.

„Börnin lifa allt öðruvísí lífi en ég gerði. Ég þurfti að vinna eins og brjálæðingur til þess að komast út úr örbirgðinni og börnin eru þakklát, ekki spillt. Því fyrr sem þau gangast við ábyrgðinni sem fylgir því að spara sér fyrir buxum og skóm því betra.“

Taka þátt í húsverkum

Ramsay vill ekki að börnin séu ofdekruð og lætur þau alltaf ganga frá eftir matinn.

„Þau taka til eftir hverja einustu máltíð. Þetta er kerfi. Það er mikilvægt að þau hjálpi til við að leggja á borð og ganga frá. Þá er mikilvægt að þau eldi og læri heima.“

Ramsay fjölskyldan á góðri stundu.
Ramsay fjölskyldan á góðri stundu. mbl.is/Tilly´s Kitchen Takeover
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert