Reyna að lifa eðlilegu lífi fyrir börnin

Justin Timberlake og Jessica Biel.
Justin Timberlake og Jessica Biel. AFP

Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake segir að hann og eiginkona hans, leikkonan Jessica Biel, reyni að lifa sem eðlilegustu lífi fyrir börnin sín. Hann hefur áhyggjur af því að fólk komi öðruvísi fram við syni hans af því að foreldrar þeirra eru frægir. 

„Ég reyni að vera meðvitaður um að passa að við lifum ekki undarlega miklu einkalífi og við erum meðvituð um að leyfa börnunum að vera börn eins lengi og við getum. Og að passa að annað fólk komi ekki öðruvísi fram við þá vegna einhvers sem foreldrar þeirra gera,“ sagði Timberlake í hlaðvarpsþættinum Archair Expert sem leikarinn Dax Shepard stýrir.  

Timberlake og Biel eignuðust sitt annað barn á síðasta ári, sonin Phineas. Fyrir áttu þau sonin Silas sem er fimm ára. 

Shepard sagðist deila þessum hugsunum með Timberlake en hann á tvær dætur með leikkonunni Kristen Bell. „Ég er dauðhræddur við að krakkar muni bara vilja vera vinir þeirra út af því, eða hata þær af sömu ástæðu,“ sagði Shepard og rifjaði upp þegar hann sagði dóttur sinni að vera ekki að monta sig af því að mamma hennar syngi fyrir Önnu í Frozen. 

Timberlake sagðist einmitt hafa upplifað svipað eftir að hann ljáði Branch í Trolls rödd sína. „Já við höfum lent í þessu sama, krakkarnir í skólanum hjá 5 ára syni mínum fóru að segja honum að pabbi hans væri Branch. Fyrir svona fólk eins og okkur þá verðum við bara að vonast til að börnin skilji að við vinnum skemmtilega vinnu, en við erum ekki vinnan okkar,“ sagði Timberlake.

mbl.is