Sökuð um að hafa birt nektarmynd af dóttur sinni

Kellyanne Conway.
Kellyanne Conway. AFP

Fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps, Kellyanne Conway, hefur verið sökuð um að hafa birt nektarmynd af sextán ára dóttur sinni Claudiu Conway. 

Nektarmynd af Claudiu birtist á twitterreikningi Kellyanne á mánudag en henni var síðar eytt af Twitter. Samkvæmt heimildum Variety er Twitter að skoða málið. Þótt myndin hafi ekki verið inni í langan tíma náðu notendur á Twitter skjáskoti af henni.

Claudia sjálf staðfesti á TikTok á mánudag að þessi nektarmynd af henni hefði verið raunveruleg. Hún hefur síðar eytt myndbandinu af reikningi sínum en aðrir notendur náðu afriti af því. Í myndbandinu velti Claudia því fyrir sér hvort mamma hennar hafi óvart birt hana. „Ég geri ráð fyrir að mamma hafi geymt þessa mynd hjá sér til að nota hana gegn mér einn daginn, síðan hafi einhver brotist inn á reikning hennar og birt hana eða eitthvað. Ég er bókstaflega orðlaus, ef þið sjáið eitthvað tilkynnið það,“ sagði Claudia. 

Claudia Conway.
Claudia Conway. Skjáskot/Instagram

Samband þeirra mæðgna virðist hafa verið stormasamt síðustu vikurnar en í síðustu viku birti Claudia nokkur myndbönd á TikTok þar sem hún sakaði móður sína um líkamlegt og andlegt ofbeldi. 

Kellyanne var ráðgjafi Trumps í tæp þrjú ár en hún lét af störfum í ágúst. Þá gaf hún þá ástæðu að hún ætlaði að einbeita sér að fjölskyldunni. Áður hafði Claudia sagt í fjölmiðlum að hún væri að reyna að losna undan forræði foreldra sinna þar sem þau hefðu beitt sig ofbeldi.

Í gær, þriðjudag, birti Claudia myndband á TikTok þar sem hún bað fólk að hætta að hringja í lögregluna. Hún sagði að þær mæðgur ætluðu að taka sér hlé frá samfélagsmiðlum og vinna í sambandi sínu.

„Ég veit að mamma mín myndi aldrei birta svona mynd af mér til að særa mig vísvitandi og ég tel að brotist hafi verið inn í tölvuna hennar,“ sagði Claudia.

Samkvæmt heimildum New York Post er lögreglan komin með málið inn á borð sitt og tók skýrslu af þeim mæðgum á heimili þeirra í gær. 

mbl.is