Katrín segir eiginmanninn hafa spillt börnunum

Katrín Jakobsdóttir segir að eiginmaður hennar Gunnar Sigvaldason hafi spillt …
Katrín Jakobsdóttir segir að eiginmaður hennar Gunnar Sigvaldason hafi spillt sonum þeirra með því að ala þá upp sem Manchester United menn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að eiginmaður hennar Gunnar Sigvaldason hafi spillt börnunum þeirra. Katrín er mikill stuðningur fótboltaliðsins Liverpool en synir þeirra þrír halda með Manchester United eins og faðir þeirra.

„Ég hef náttúrulega ekki sinnt uppeldi barnanna nægileg vel þannig að þeir eru Manchester United menn. Maðurinn minn er Manchester United maður. Hann hefur eytt meiri tíma með börnunum. Hann er búinn að eyðileggja þetta,“ sagði Katrín í samtali við Valtý Björn Valtýsson. Katrín var tippari vikunnar í hlaðvarpsþætti Valtýs, Mín skoðun. 

Katrín segir að mikil togstreita hafi verið á heimilinu síðustu daga en erkifjendurnir Liverpool og Manchester United öttu kappi tvær helgar í röð. Í fyrra skiptið skildu liðin jöfn en í seinni leiknum hafði United betur. 

Katrín hefur ekki farið leynt með stuðning sinn við Bítlaborgarliðið og hefur meðal annars mætt með Liverpool trefil í sal Alþingis.

Þrátt fyrir að Liverpool hafi unnið góðan sigur á Tottenham í gærkvöldi hefur gengi liðsins ekki verið gott og kennir Katrín meiðslum um en miðverðirnir Virgil Van Dijk og Joe Gomez eru báðir meiddir auk fleiri leikmanna. 

Katrín sagðist vera einstaklega hrifin af knattspyrnustjóra Liverpool, Jürgen Klopp, og að  Mohammed Salah og Sadio Mané væru hennar uppáhalds leikmenn sem spila með liðinu í dag. Hennar uppáhalds fótboltamaður fyrr og síðar er þó franski leikmaðurinn Zinedine Zidane sem hefur aldrei spilað með Liverpool.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert