Tiltekt hefur jákvæð áhrif á uppeldið

Börn njóta sín betur ef þau hafa pláss til þess …
Börn njóta sín betur ef þau hafa pláss til þess að vera skapandi og lifa í núinu með foreldrum sínum. Unsplash

Tiltekt getur snúist um svo miklu meira en bara að þrífa og fjarlægja óþarfa muni. Laura Forbes Carlin segir að góð tiltekt geti haft mikið að segja í uppeldi barna. Með minna af óþarfa dóti geta börnin notið plássins sem það skapar og lagt meiri áherslu á skapandi starf og tengst betur umhverfinu. Carlin segir að hægt sé að búa til heimili laust við óþarfa drasl og fá börnin með sér í lið.

„Drasl er í rauninni tilfinningaleg óreiða og getur haft skaðleg áhrif á samband foreldris og barns,“ segir Carlin í viðtali við Goop

Minna dót og meiri ást

„Þegar við höldum í eitthvað sem þjónar engum tilgangi erum við að halda dauðataki í fortíðina eða höfum áhyggjur af framtíðinni. Í slíkum kringumstæðum erum við ekki að lifa í núinu með börnunum okkar.

Drasl tekur líka frá okkur tíma og orku en það tvennt er nokkuð sem allir foreldrar þurfa á að halda. Að búa á óreiðukenndu heimili getur verið yfirþyrmandi og streituvaldandi. Við beinum orku okkar í dauða hluti frekar en í fjölskyldu okkar.

Enga dómhörku

Um leið og við tökum til eflist sýn okkar á lífið með börnunum okkar; hvaða væntingar við höfum til þess, og allar þessar hugmyndir hafa nú pláss til þess að flæða fram óhindrað. Það skiptir máli hvernig við förum að. Ef við nálgumst verkefnið með dómhörku gagnvart okkur sjálfum sköpum við slíka orku innan heimilisins. Best er að hafa skýr markmið og ímynda sér sitt fullkomna heimili. Hvernig líður þér þar? Leyfðu þessum tilfinningum að ráða för í tiltektinni.

Ferli sem er aldrei búið

Tiltekt er ferli sem er í rauninni aldrei búið. Við erum alltaf að breytast og þróast og það setur mark sitt á heimilið hverju sinni. Við erum alltaf að skipta út leikföngum eftir þroskastigi barns og sama ætti að eiga við um fullorðna. Að breyta og bæta eftir markmiðum hverju sinni. Þótt við höfum elskað einhvern hlut fyrir tíu árum þýðir það ekki að hluturinn þurfi að hafa sömu merkingu fyrir þig núna.

Pláss til að lifa og njóta

Stundum ruglum við saman óreiðu og drasli. Óreiðan skapast stundum af hlutum sem við elskum og erum alltaf að nota. Það er til marks um að við lifum lífinu. Ef við svo getum ekki notið matarins vegna þess að eldhúsið er í drasli eftir matargerðina eða ef litir eru út um allt eftir föndurtíma barnanna þá þurfum við að stíga skref til baka og minna okkur á markmiðin. Af hverju erum við að þessu? Markmiðið er að búa til pláss til þess að njóta okkar til fulls.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert