Fæðingavottorði Archies Harrisons var breytt mánuði eftir fæðingu hans en sonur hertogahjónanna Harrys og Meghan fæddist í maí 2019. Nafn hertogynjunnar var tekið út sem og nafn Harrys en Meghan heitir Rachel Meghan. Konunglegir titlar þeirra stóðu aðeins eftir.
Mynd af fæðingarvottorðinu birtist á vef The Sun. Í fyrstu var talið að breyting hefði verið gerð til heiðurs Díönu prinsessu heitinni en á fæðingarvottorði sona hennar stendur einungis hin konunglega prinsessa af Wales. Einnig var talið að breytingin gæti verið vegna rifrildis bræðranna Harrys og Vilhjálms en nafn Katrínar hefur verið á fæðingarvottorði barna þeirra.
Meghan sá ástæðu til þess að tjá sig um málið og svo virðist sem slúðurmiðillinn og sérfræðingar hans hafi verið á villigötum. Talsmaður Meghan sendi yfirlýsingu á fjölmiðla á borð við E!.
„Breytingin í opinberum skjölum árið 2019 var að skipan hallarinnar eins og staðfest er í skjölum frá starfsmönnum hennar,“ sagði í yfirlýsingunni en með höllinni er átt við Buckingham-höll. „Þetta var ekki beiðni Meghan, hertogaynjunnar af Sussex, né hertogans af Sussex.“
Í yfirlýsingunni er einnig sett út á breska slúðurmiðla og hvernig svokallaðir sérfræðingar búi til fjölskylduvandamál úr engu. Það væri skrítið að ósk Meghan væri að vera nafnlaus á fæðingarvottirði barns síns eða í öðrum skjölum.