Mikill sársauki þegar kynið var opinberað

Faðirinn átti í erfiðleikum með að opna innibombuna.
Faðirinn átti í erfiðleikum með að opna innibombuna. Skjáskot/Youtube

Falleg stund þar sem átti að opinbera kyn ófædds barns fór ekki eins og áætlað var þegar faðirinn skaut innibombu í öfuga átt. Foreldrarnir birtu myndskeiðið á Youtube af föðurnum veltast um á gólfinu við mikinn fögnuð eldri dóttur þeirra. 

Foreldrarnir vissu greinilega að barnið væri strákur og virtist húllumhæið ætlað dóttur þeirra sem var spennt að fá vita hvort um væri að ræða stelpu eða strák. Móðirin var tilbúin með bláar blöðrur en verr gekk hjá föðurnum að sprengja innibombu með bláu innihaldi. 

Eftir mikið erfiði skaust loksins lokið af og beint í klof mannsins. Óhappinu fylgdi mikill sársauki og maðurinn lét sig falla beint á gólfið. Litlu stúlkunni fannst óhappið þó bara skemmtilegt og hljóp í kringum föður sinn yfir sig ánægð með tilvonandi litla bróður. 

Sjón er sögu ríkari. Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá myndskeiðið sem er sprenghlægilegt. 

mbl.is