Vildi eignast barnið sama hvað

Valdís Ósk og Sveinn sonur hennar.
Valdís Ósk og Sveinn sonur hennar. Ljósmynd/Aðsend

Valdís Ósk Pétursdóttir Randrup bloggari á Uglur.is eignaðist soninn Svein fyrir ári. Valdís sem er 23 ára og búsett á Akranesi var í sambandi með föður Sveins þegar hún varð ólétt en fljótlega slitnaði upp úr sambandinu. Það kom aldrei til greina annað en að eignast litla drenginn þrátt fyrir að það reyni stundum á að vera einstæð móðir í heimsfaraldri. 

„Ég var með pabbanum þegar ég komst að því að ég væri ólétt en við hættum saman þegar ég er komin fjórar vikur á leið. Enda var það það besta í stöðunni. Það kom alls ekki til greina að ég myndi láta eyða fóstrinu þar sem ég vildi alveg sama hvað eiga barnið. Ég á æðislegt bakland sem hefur staðið vel við bakið á mér frá því að ég flutti aftur heim,“ segir Valdís um það að eignast barn ein. Valdís segir foreldra sína gera allt sem þau mögulega geta til þess að létta undir með henni. 

Valdís segir margt ólíkt að vera einstæð móðir og móðir sem treystir á maka í uppeldinu. „Ég þarf til dæmis að vakna með barninu alla daga. Ekki misskilja mig, ég elska barnið og allt það en stundum þarf mamman að fá að sofa, sérstaklega þegar það er ekki mikill svefn sumar nætur. Pabbi á til að taka strákinn stundum og leyfa mér að sofa aðeins lengur.“

Hvernig hefur fyrsta árið sem mamma verið?

„Fyrsta árið er búið að vera mjög skrautlegt. Þegar ég var gengin 39 vikur og þrjá daga skrifuðu mamma og pabbi undir kaupsamning. Við vorum að byrja að dunda okkur við að flytja í rauðri veðurviðvörun. Ég tek fram að ég mæli ekki með því. Við eða réttara sagt þau náðu að klára að flytja degi áður en hann ákveður að koma í heiminn.

Sonur Valdísar Óskar kom í heiminn degi eftir flutninga.
Sonur Valdísar Óskar kom í heiminn degi eftir flutninga. Ljósmynd/Aðsend

Fyrstu dagarnir heima fóru bara í að hvílast og kynnast. Við erum fyrst núna að ná að skíra barnið vegna faraldursins. Svo er sambandið milli mín og pabba stráksins ekki búið að vera upp á marga fiska en okkur tókst loksins að láta okkar vandamál til hliðar og fórum að einbeita okkur að barninu svo því líði vel.

Fyrstu fjórir mánuðirnir voru samt örugglega erfiðastir þar sem hann fékk magakveisu, hann grét öll kvöld frá um fimm eða sex til níu eða tíu á kvöldin. Á þeim tímapunkti virkaði ekkert nema labba með hann. Þegar kom að kvöldmat þá var alltaf annaðhvort ég, mamma eða pabbi sem var með strákinn á meðan hinir borðuðu. Þegar það leið svo á sumarið þá byrjuðu loksins mömmuhittingar sem gjörsamlega bjargaði svo miklu. Þótt þeir hafi bara verið þrír þá var það mjög gott að ná að hitta aðrar mömmur eða bara yfirhöfuð að komast út.

Annars reyndi ég bara að vera dugleg að fara í göngutúra til að fá frískt loft. Ég átti og á enn þá til að vera bara inni allan daginn, stundum koma alveg dagar sem ég fer ekkert út en þá reyna foreldrar mínir að gefa mér smá spark í rassinn og senda mig smá út.“

Móðurástin er ólýsanleg.
Móðurástin er ólýsanleg. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hefur móðurhlutverkið breytt þér?

„Móðurhlutverkið hefur breytt mér alveg á þann hátt að ég læri betur hvernig ég get nýtt tíma minn á daginn, þessi ást sem ég vissi ekki að maður gæti gefið frá sér. Svo hef ég líka bara tekið eftir því hverjir eru til staðar og hverjir ekki eftir að ég varð mamma. En ég auðvitað skil að fólk er í vinnu og allt það en kommon kíktu á vinkonu þína sem hefur eignast barn, kíktu á hvernig hún hefur það. Það tekur ekki langan tíma þótt það sé bara smá skilaboð, það gerir svo mikið fyrir hana.“

Hvað hefur verið mest krefjandi?

„Allt hefur verið krefjandi, sérstaklega tanntökutímabilið, að fara með hann í bílferðir þar sem hann er hræðilegur í bíl, hann grætur svo mikið í bíl. Annars er allt einhvern veginn krefjandi – bara á mismunandi hátt.“

Sveinn litli kom í heiminn akkúrat þegar kórónuveirufaraldurinn fór að berast til landsins. Heimsfaraldurinn hafði áhrif á fæðingarorlofið eins og svo margt annað. „Vegna þess að við erum öll almannavarnir þá erum við í mömmuhópnum ekkert að hittast mikið. Við erum komnar í aðeins minni hóp við sem erum aðeins nánari en hinar og erum að reyna draga hver aðra í smá hitting eða jafnvel í göngutúra þegar veður leyfir,“ segir Valdís sem er bjartsýn á að næsta sumar verði gott og skemmtilegt.

Smærri mömmuhópar í kórónuveirufaraldrinum hafa gefið Valdísi Ósk mikið.
Smærri mömmuhópar í kórónuveirufaraldrinum hafa gefið Valdísi Ósk mikið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is