Sjáðu Ægi Þór sigra í hæfileikakeppninni

Ægir Þór Sævarsson nemandi í fjórða bekk Grunnskóla Hornafjarðar bar sigur úr býtum í hæfileikakeppni skólans sem haldin var á öskudaginn. Hann tók loftgítar við lagið Welcome To The Jungle með Guns N' Roses. 

Ægir Þór er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne og hefur móðir hans, Hulda Björk Svansdóttir, barist fyrir son sinn af miklum móð. Hún er pistlahöfundur á mbl.is og hefur skrifað mikið um baráttu sína. 

„Á þriðjudaginn kom Ægir heim og sagði: „Mamma ég er með góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru að ég skráði mig í hæfileikakeppnina í skólanum á öskudaginn. Slæmu fréttirnar eru að ég veit ekki hver hæfileikinn minn er.“ Æ, hann er svo óborganlegur þessi elska, ég er enn að hlæja að þessu. Þetta lýsir samt nokkuð vel því litla sjálfstrausti sem hann hefur því miður. Við veltum mikið fyrir okkur hvað hann gæti gert í keppninni og lendingin var að hann ætlaði að taka loftgítaratriði við lagið Welcome To The Jungle,“ segir Hulda Björk Svansdóttir móðir Ægis Þórs í sínum nýjasta pistli. 

mbl.is