Diaz setur leiklistina til hliðar

Leikkonan Cameron Diaz er ánægð í móðurhlutverkinu.
Leikkonan Cameron Diaz er ánægð í móðurhlutverkinu. mbl.is/AFP

Cameron Diaz hefur sett leiklistina á hilluna í bili að minnsta kosti. Ástæðan segir hún vera dóttur sína en hún getur ekki hugsað sér að vera fjarri henni.

Diaz sem er 48 ára eignaðist sitt fyrsta barn, dótturina Raddix, í desember 2019. 

„Mun ég einhvern tímann leika í kvikmynd aftur? Ég er ekki að leitast eftir því. Ég veit það ekki, hef ekki hugmynd. Kannski á maður aldrei að segja aldrei, en ég gæti ekki ímyndað mér að þurfa að vera á kvikmyndatökustað í 14 til 16 tíma í senn, fjarri dóttur minni,“ sagði Diaz í viðtali við SiriusXM.

„Ég finn til fyrir hönd þeirra mæðra sem verða að snúa aftur til vinnu og geta ekki verið með börnunum á fyrsta ári þeirra. Það þarf heilt þorp. Ég er lánsöm að geta verið til staðar hér og nú með barni mínu og fæ að vera móðirin sem ég vil vera. Þetta eru mikil forréttindi og ég er afar þakklát,“ segir Diaz.

mbl.is