Nenna ekki að horfa á kvikmyndir móður sinnar

Leikkonan Drew Barrymore.
Leikkonan Drew Barrymore. AFP

Leikkonan Drew Barrymore segir að börnin hennar nenni alls ekki að horfa á kvikmyndirnar hennar. Barrymore á tvær dætur, þær Olive 8 ára og Frankie 6 ára. 

„Þær kalla þær „mömmubíómyndir“,“ sagði Barrymore í spjalli við leikarann Hugh Grant. Barrymore og Grant spjölluðu saman í viðtali fyrir SAG-verðlaunahátíðina nú á dögunum. 

Grant spurði hana hvort þær hefðu verið hrifnar af kvikmyndinni sem þau Barrymore léku saman í, Music and Lyrics. „Veistu, ég held þær hafi ekki séð hana, eins klikkað og það hljómar,“ sagði Barrymore.

Grant var sammála því að það væri klikkað og sagði að hann neyddi börnin sín til að horfa á kvikmyndirnar sínar öll kvöld. „Ef þau vilja ekki horfa á kvikmyndirnar mínar fá þau ekki að borða,“ sagði Grant í léttum tón. 

Dætur Barrymore hafa séð 50 First Dates, Never Been Kissed og E.T. og voru ekki hrifnar af neinni þeirra. Hún stefndi þó á að sýna þeim Music and Lyrics fljótlega. 

mbl.is