Britney Spears hittir synina sjaldan

Britney Spears með sonum sínum.
Britney Spears með sonum sínum. Skjáskot/Instagram

Britney Spears birti myndir á Instagram af sér og sonum sínum, Sean og Jayden, í vikunni. Strákarnir eru 15 og 14 ára en poppstjarnan heldur þeim venjulega frá samfélagsmiðlum sínum. Synirnir kjósa frekar að verja tíma með vinum en móður sinni. 

„Ég er ótrúlega heppin af því að strákarnir mínir tveir eru svo miklir herramenn og svo ljúfir að ég hlýt að hafa gert eitthvað rétt,“ skrifaði Spears. Hún segist ekki hafa birt myndir af þeim lengi þar sem þeir eru á þeim aldri að þeir vilja tjá sig á sinn hátt. Spears segir synina hafa gefið leyfi fyrir myndbirtingunni. 

Spears á rétt á að vera með sonum sínum 30 prósent af tíma þeirra en faðir þeirra Kevin Federline 70 prósent. Áður fyrr var hún meira með þá að því er kemur fram á vef Us Weekly. Federline krafðist þess að forræðissamningi þeirra yrði breytt eftir að það kom til átaka á milli föður Spears og Seans árið 2019.

„Síðan þá hafa strákarnir heimsótt hana sjaldnar. Þeir eru að mestu leyti heima hjá pabba sínum og heimsækja móður sína sjaldan, sérstaklega ekki yfir nótt,“ sagði heimildarmaður Us Weekly. „Þeir eru orðnir unglingar og vilja vera með vinum sínum, ekki foreldrum. Þetta snýst ekki um Britney, þeir elska hana og Kevin treystir henni. Þeir eru bara að verða eldri svo þegar þeir eru ekki á aðalheimili sínu með Kevin eru þeir oftast úti með vinum.“

mbl.is