Óléttan var skipulögð

Halsey.
Halsey. AFP

Bandaríska tónlistarkonan Halsey á von á sínu fyrsta barni. Hún er ósátt við að ókunnugt fólk velti fyrir sér frjósemi annarra. Tónlistarkonan greindi frá því á samfélagsmiðlum í janúar að hún ætti von á barni með kærasta sínum Alev Aydin. Óléttan var skipulögð þrátt fyrir stutt samband. 

„Af hverju er það í lagi að velta fyrir sér og fella dóm um frjósemi og getnað?“ spurði Halsey í sögu á Instagram á dögunum. „Mín ólétta var 100 prósent skipulögð og ég reyndi mjög mikið að eignast þetta barn. En ég væri alveg jafnánægð ef það hefði verið öðruvísi.“

Stjarnan hefur fengið að finna fyrir áhuga fólks á barneignum hennar og ekki bara núna þegar hún er ólétt. Árið 2019 neitaði hún sögusögnum um að hún væri ólétt og sagðist einfaldlega hafa borðað glúten. Stjarnan missti fóstur stuttu áður en hún sló í gegn og hefur talað opinberlega um frjósemi sína. Hún var ekki gömul þegar hún ræddi þann möguleika að frysta egg. 

mbl.is