Fluttu til Noregs í leit að barnvænna lífi

Hjónin Sigursteinn Orri Hálfdánarson og Hulda Margrét Brynjarsdóttir ásamt dætrum …
Hjónin Sigursteinn Orri Hálfdánarson og Hulda Margrét Brynjarsdóttir ásamt dætrum sínum Emilíu Ósk og Andreu Karen. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Hulda Margrét Brynjarsdóttir og Sigursteinn Orri Hálfdánarson búa í Noregi. Þau fluttu til Noregs í leit að rólegra og barnvænna lífi en Huldu langaði að vera meira heima með dætur þeirra sem eru fjögurra og tveggja ára. Hulda segist ekki vera að fórna neinu þrátt fyrir að vera ekki á hefðbundnum vinnumarkaði. Hún lítur á lífið þannig að hún sé að græða dýrmætar stundir með dætrum sínum.

Örlögin gripu í taumana hjá þeim Huldu og Sigursteini þegar Hulda varð ólétt af eldri dóttur þeirra. Hulda neyddist til þess að taka sér hlé frá knattspyrnu þegar hún varð ólétt en fljótlega eftir að frumburðurinn kom í heiminn fann Hulda köllun sína. 

„Sú eldri kom óvænt undir og mér fannst ég alls ekki tilbúin í að verða mamma. Alla meðgönguna var ég mjög óánægð með að geta ekki haldið áfram í fótboltanum eins og ég vildi en ég spilaði þá með og var fyrirliði ÍA og við höfðum akkúrat unnið 1. deildina og áttum að spila í efstu deild sumarið eftir. En eftir að við eignuðumst frumburðinn var ekki aftur snúið og hún færði mér einnig tilganginn sem ég hafði lengi leitað að. Hún varð uppspretta mikillar sjálfsvinnu hjá mér, ég varð fljótt ólétt aftur og rétt áður en sú eldri varð tveggja ára fæddist sú yngri,“ segir Hulda.

Náttúran er stór hluti af leiksvæði dætranna.
Náttúran er stór hluti af leiksvæði dætranna. Ljósmynd/Aðsend

Upplifa annað heima en á leikskólanum

Stuttu eftir fæðingu yngri dóttur þeirra fæddist sú hugmynd að flytja til Noregs og rúmum tveimur mánuðum seinna voru þau flutt. 

„Ég hafði alltaf verið mjög upptekin af því að vera með þær heima en sá ekki endilega fyrir mér að geta það á Íslandi. Ég hafði verið mjög föst á því að sú eldri færi ekki á leikskóla fyrr en tveggja ára í fyrsta lagi en mamma mín var með hana hálfan dag svo ég gæti unnið eftir að ég var búin með fæðingarorlofið mitt. Ég fékk sjálf uppeldi þar sem okkur var gefinn mikill tími. Við vorum til að mynda aldrei nema hálfan dag á leikskóla og ég fékk að vera mikið með pabba í vinnunni uppi á golfvelli á Akranesi, sem voru mikil forréttindi og góður tími. Mér var treyst til að taka ábyrgð á ýmsum hlutum og ég var hvött til að fylgja draumum mínum.“

Við komuna til Noregs fór eldri stelpan á leikskóla og sú yngri fékk pláss þegar hún var 14 mánaða. Hulda og Sigursteinn unnu úti til skiptis. 

„Loks þegar sú yngri hafði verið um það bil níu mánuði á leikskóla ákváðum við að fylgja innsæinu. Ég hætti alveg í dagvinnunni sem ég var í, fótboltanum og fjarnámi frá HÍ og einbeitti mér að dætrum mínum á daginn og að mínu eigin fyrirtæki, Path To Parenting, á kvöldin. Þeim fannst alltaf fínt að fara á leikskólann en ég trúi að þær hafi fundið það á mér hvað mig langaði að vera með þær heima þótt mér hafi þótt leikskólinn þeirra, starfsfólk og þjónusta alveg framúrskarandi. Og auðvitað langar flest börn að fá að vera með foreldrum sínum.“

Dæturnar læra heima hjá móður sinni í stað þess að …
Dæturnar læra heima hjá móður sinni í stað þess að vera á leikskóla. Ljósmynd/Aðsend

„Við ræðum oft um það hvað börnin okkar sáu á leikskólanum og hvað þau sjá með mér.  Við höfum fylgst með mönnum malbika, fengið að skoða inn í ruslabíl, sjúkrabíla og lögreglubíla, við höfum rætt við ógrynni af fólki, við gerum dagsverkin saman, við búum til rútínu saman fyrir daginn og það sem best er, við erum að byggja upp samband og til þess að byggja upp gott samband þarf að gefa því tíma,“ segir Hulda sem er umhugað um að dætur sínar fái næði til að leika sér og læra. Þrátt fyrir að leikskólinn sem þær voru á hafi verið góður er töluvert minni samkeppni um athygli þeirra fullorðnu þegar það er bara ein manneskja með tvö börn. Þegar þær verða eldri og hefja grunnskólanám fara þær í Steiner-skóla í nágrenninu en hugmyndafræðin er einnig þekkt sem Waldorf. 

Þetta er stuttur og dýrmætur tími

Færð þú einhverja gagnrýni fyrir að kjósa að lifa lífinu svona?

„Ég hef verið spurð að því hvort börnin mín þurfi ekki að læra að leika við önnur börn, þurfi ekki að læra tungumálið, hvort ég þurfi nú ekki að vinna og gera eitthvað fyrir sjálfa mig – ég geti ekki bara „hætt“ að lifa mínu lífi og helgað líf mitt þeim. En ég held að fólk átti sig alls ekki á að mér finnst þessi tími stuttur og dýrmætur og að ég sé þetta ekki sem fórn af neinu tagi. Ekki það að ég sé alltaf í góðu skapi eða að ég hafi alltaf bullandi áhuga á að taka á móti grátköstum og fleiru, enda er tilgangurinn ekki að þetta sé fullkomið líf eða alltaf ótrúlega þægilegt og skemmtilegt. Í heildina eru börn svo ótrúlega góð í að spegla orku okkar og hegðun og þær hafa hjálpað mér gríðarlega í eigin sjálfsvinnu og verið mínar helstu spegilmyndir og fyrirmyndir.“ 

Ákvörðunin um að Hulda væri heima fyrstu árin kom náttúrulega og frá henni sjálfri. Hún vildi vera heima með dætur þeirra og segir manninn sinn einfaldlega þrífast betur á vinnustað. 

 „Við höfum stundum rætt það að við séum hissa á því að ekki séu fleiri sem velji að vera heima en komum alltaf aftur að því að maðurinn minn þrífst til dæmis betur í vinnunni sinni en heima, svo það er ekki okkar að dæma. Það að eignast börn þýðir ekki endilega að maður hafi áhuga á að vera með þeim allan sólarhringinn, alla daga. Hann er til dæmis frábær pabbi þótt hann sé ekki með þeim eins mikið og ég og gefur þeim óskipta athygli, er rólyndur og við erum á sömu blaðsíðu í uppeldinu, sem eru mikil forréttindi. Hann var alltaf tilbúinn að styðja mig fjárhagslega og andlega í að vera heima með börnin því hann vissi og sá hversu heitt ég þráði það að fá að kynnast þessum litlu manneskjum sem við buðum í þennan heim. Honum hefur fundist það jafngott og mér að ég sé heima með þær. Ég er föst á þeirri skoðun að meiri tími með foreldrum fyrstu fimm árin byggi upp gríðarlega góðan grunn í sambandi foreldra og barna – hjá þeim sem geta að sjálfsögðu.“

Tvö ár eru á milli systranna.
Tvö ár eru á milli systranna. Ljósmynd/Aðsend

Kerfið er fjölskylduvænna

Hulda segir það gerlegra að vera heima með börn í Noregi. Hún bendir á að fæðingarorlofið sé lengra en á Íslandi auk þess sem fólk eigi kost á styrkjum til þess að vera heima með börn til tveggja ára aldurs. Þau fengu til dæmis styrk sem samsvarar 110 þúsund íslenskum krónum á meðan yngri dóttir þeirra var heima. Hulda segir fjárhæðina hafa hjálpað heilmikið en á þessum tíma var hún útivinnandi en eiginmaður hennar heimavinnandi. 

„Það má einnig vinna með þessum styrk en við vissum það ekki fyrr en seinna meir.  Markmiðið okkar var samt áfram að ég yrði á endanum heima með þær. Á Íslandi unnum við baki brotnu og vorum bæði í fleiri en einni vinnu yfirleitt og tókum aukavaktir í gríð og erg. Okkur fannst við föst á leigumarkaði, þótt við værum að leigja af vinafólki og ódýrara en flestir aðrir. Við sáum ekki framtíð í fjárfestingu á íslenskum húsnæðismarkaði og vorum bara í almennri óvissu á Íslandi.

Þegar við fluttum þurftum við auðvitað að taka til í okkar málum og forgangsraða, enda er það dýrt að flytja og tíma- og orkufrekt. Það samt hófst einhvern veginn og við sjáum það svart á hvítu að hér er mikið fjölskylduvænna líf, börn verja styttri tíma í leikskóla og eru til dæmis ekki byrjuð í íþróttaiðkun eins snemma og á Íslandi svona upp til hópa. Það er mikið lagt upp úr samveru, útiveru sem fjölskylda og lífið hér er bara aðeins hægara.

Við fáum betri laun og fáum meira fyrir peningana en heima á Íslandi. Ég held það hafi gert mér og stelpunum mínum gott að vera svolítið út af fyrir okkur í heimaskóla en ekki heima á Íslandi. Þetta virðist vera eðlilegra í Noregi en heima á klakanum. Það er samt ekki endilega þar með sagt að grasið sé grænna hinum megin því Norðmenn eru eftir á í mörgu öðru en við vildum eitthvað sem var fjölskylduvænna og kerfi sem studdi ákvörðun okkar og við fundum það í Noregi.“

Það er leikur að læra.
Það er leikur að læra. Ljósmynd/Aðsend

Lífið í Noregi er rólegt

Hulda og Sigursteinn hafa tekið líf Norðmanna sér til fyrirmynda. Þau leigja fallegt hús á fallegum stað rétt fyrir utan lítinn bæ í um klukkutíma fjarlægð frá Ósló. Á hefðbundnum degi vinnur Sigursteinn sjö og hálfan klukkutíma á meðan Hulda og stelpurnar gera alls konar skandala. Þegar Sigursteinn kemur heim úr vinnu borðar fjölskyldan svokallaðan middag um 16:30 en það er eins konar kvöldverður. Hún segir frábært að borða fjölskyldumáltíðina svona snemma þar sem börn eru oft orðin þreytt, pirruð og svengdin jafnvel liðin hjá eftir klukkan sex.

„Eftir „middag“ fer ég svo í tölvuna að vinna og sinna mínum verkefnum.  Við eigum svo kvöldstund saman áður en stelpurnar sofna og svo vinn ég aðeins fram eftir, áður en við hjónin förum að sofa. Við lifum sem sagt miklu hægara lífi en við gerðum heima á Íslandi og flutningarnir hjálpuðu okkur mikið í að byggja upp okkar samband, okkar langanir og óskir og endurhanna okkar eigið líf. Við erum til dæmis með tvær geitur í bakgarðinum núna sem við sjáum um á meðan við leigjum þetta hús og okkur langar að fá okkur hænur í sumar. Við erum aðeins að stíga til baka, viljum reyna að nýta tímann okkar vel og höfum ánægju af að gera nýja hluti saman og breyta til. Með virðingarríku uppeldi og mínimalískari lífsstíl erum við líka að færast nær náttúrunni og uppruna okkar. Þetta var eitthvað sem okkur datt í hug eftir að við fluttum út því heima er einfaldlega meiri hraði og meiri hjarðhegðun en hér úti.“

Fjárfesta í tíma

Hulda talar um að fjárfesta í tímanum og segir það eitt það besta sem þau hjón hafa gert fyrir börnin sín.

„Við erum mörg hver föst í því að gefa börnunum okkar veraldlega hluti þegar allt sem við þurfum að gera er að vera saman, verja tíma saman, tengjast, kynnast hvert öðru. Í dag lifum við þannig að við neitum okkur ekki um hlutina en þegar okkur langar í eitthvað þá erum við ekki endilega að framkvæma það strax. Við tölum um það sem okkur langar í og langar að gera en við leyfum okkur að dreyma meira en við gerðum, frekar en að hjóla í einhver kaup sem gefa stundarhamingju. En svo tökum við til dæmis upp á því að ferðast til Íslands og fjárfesta í tíma þar með fjölskyldum okkar og vinum. Við eigum fáa hluti en alveg nóg, við erum dugleg að ræða fjármál og tíma og fáum til dæmis pössun reglulega eftir að dætur okkar eru sofnaðar til að fara út í göngu saman og það er eiginlega eitt af þeim verkfærum sem algerlega bjargaði sambandinu okkar eftir að við fluttum hingað út; ótruflaður tími úti í náttúrunni, bara við tvö að ræða málin og ganga. Það er ýmislegt sem við höfum skipt út fyrir eitthvað betra í okkar lífi, eitthvað sem styður okkur í að byggja upp drauma okkar og styður við sambandið okkar.“

Ljósmynd/Aðsend

Uppeldi er ástríða

Eitt af því sem Hulda saknar einna mest frá Íslandi er hennar eigin móðir. Hún segir að það gæti verið gott að geta stundum fengið hjálp frá móður sinni sem sér ekki sólina fyrir ömmubörnunum sínum.

„Mig langar stundum að vakna á morgnana og vinna í mínu eigin verkefni þar sem ég aðstoða aðra foreldra og þá aðallega mæður við að skilja og innleiða virðingarríkt uppeldi, en það er eitthvað sem ég hef verið að stússast í síðastliðin fjögur ár og er loks farin að selja þjónustu því tengda. Ég hef einnig hafið nám hjá RIE institute of America og þar er fjöldinn allur af bókum sem okkur er gert að lesa en sem betur fer get ég tekið það nám á mínum eigin hraða. Oft vakna ég uppfull af hugmyndum sem mig langar að framkvæma og þá getur verið erfitt að kúpla sig til baka og verja heilum degi með stelpunum mínum áður en ég fæ að setjast niður og vinna,“ segir Hulda.

Hulda heldur úti síðu á samfélagsmiðlum, Path To Parenting á ensku og Leið að uppeldi á íslensku. „Þar deili ég lífinu okkar, hugrenningum mínum um virðingu í uppeldi og geðheilbrigði almennt. Ég sýni fólki frá því hvernig dagarnir okkar eru, er opin á raunina í lífinu og spara ekki stóru orðin þegar kemur að málefnum barna. Ég er nú með fyrirlestra sem heita AGI TIL ÁRANGURS: leiðir innan virðingarríks uppeldis sem styðja við aga og styrkja tengsl og hægt er að kaupa aðgang að þeim í gegnum Facebook-síðuna mína Path To Parenting.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert