Hvað er í vændum fyrir barn Harrys og Meghan?

Harry og Meghan eiga von á sínu öðru barni.
Harry og Meghan eiga von á sínu öðru barni.

Harry og Meghan eiga von á sínu öðru barni í sumar. Margir eru farnir að velta vöngum yfir því hvað sé í vændum fyrir það barn í ljósi nýrrar stöðu Harrys og Meghan. 

Barnið verður það áttunda í erfðaröðinni að bresku krúnunni og verður tíunda eða ellefta langömmubarn Elísabetar drottningar (fer eftir því hvor verður fyrri til þess að eiga, Meghan eða Zara Tindall). 

Ef barnið fæðist í Bandaríkjunum

Barnið verður fyrsta langömmubarn drottningar sem fæðist utan Bretlands. Ef barnið fæðist í Bandaríkjunum (sem talið er næsta víst) mun það, auk Archies, vera með bæði breskan og bandarískan ríkisborgararétt. Þau gætu því bæði boðið sig fram til forseta Bandaríkjanna þegar fram líða stundir ásamt því að vera erfingjar bresku krúnunnar.

Óljóst hvort nýfætt barnið hitti drottninguna

Það er ólíklegt að drottningin fái að hitta nýfætt barnið eins og hefð er fyrir. Harry er væntanlegur til Bretlands í sumar en ólíklegt er að Meghan fylgi honum af augljósum ástæðum, bæði vegna kórónuveirufaraldurs auk þess sem margir setja fyrir sig að fara í löng ferðalög með nýfædd börn.

Hverjir verða guðforeldrar?

Guðforeldrar Archies eru taldir vera fyrrverandi barnfóstra Harrys, Tiggy Pettifer, og vinir hans Charlie van Straubenzee og Mark Dyer. Talið er að það verði meiri Hollywood-bragur á guðforeldrum annars barns þeirra og hafa nöfn á borð við Opruh Winfrey og Elton John verið nefnd.

mbl.is