Leggur ekki í meðgöngu eftir þunglyndi

Shay Mitchell.
Shay Mitchell. AFP

Pretty Little Liars-leikkonan Shay Mitchell eignaðist sitt fyrsta barn fyrir einu og hálfu ári. Hún vill gjarnan eignast annað barn en er ekki viss um að hún leggi í það þar sem hún glímdi við meðgönguþunglyndi þegar hún gekk með dóttur sína. 

„Ég ætla að vera hreinskilin og segja það. Mig langar svo mikið að Atlas eignist systkini en ég veit ekki hvort ég get gengið með barn aftur. Ég var ekki geislandi gyðja sem elskaði þetta. Mig langar ekki að ganga með barn aftur af því það tók á andlega,“ sagði leikkonan í hlaðvarpsþættinum Kaite's Crip að því er fram kemur á vef People

„Ég fékk meðgönguþunglyndi, ekki fæðingarþunglyndi,“ sagði Mitchell. Hún hafði heyrt um fæðingarþunglyndi og bjó sig undir það en hafði ekki heyrt talað um meðgönguþunglyndi. Henni fannst eins og hún ætti að vera glöð. „Svo ég er stressuð yfir að það gerist aftur. Hins vegar ef ég er heima og líður vel og er ekki stressuð þá líður mér betur.“

Mitchell missti fóstur einu sinni áður en dóttir hennar varð til. Mikill kvíði fylgdi lífsreynslunni og lokaði Mitchell sig af og reyndi að fela óléttuna í hálft ár. Fyrst þegar hún varð ólétt sagði hún frá eftir átta vikur en þegar hún varð ólétt í annað sinn sagði hún eiginlega ekki neinum frá nema nánustu fjölskyldu.

mbl.is