Stúlkan nefnd í höfuðið á ömmunum

Pippa Middleton og James Matthews eiga nú tvö börn, strák …
Pippa Middleton og James Matthews eiga nú tvö börn, strák og stelpu. AFP

Pippa Middleton og James Matthews hafa eignast sitt annað barn, litla stúlku. Fyrir eiga hjónin soninn Arthur sem fæddist 2019. Fæðingin er sögð hafa gengið vel og eru hjónin sögð í skýjunum með dótturina.

Stúlkan hefur hlotið nafnið Grace Elizabeth Jane. Óljóst er hvers vegna nafnið Grace varð fyrir valinu en ljóst er að tvö seinni nöfnin hafa sérstaka merkingu fyrir parið.

Elísabetar-nafnið á sér sterka hefð innan fjölskyldu Pippu en bæði móðir Pippu, Carol og Katrín systir Pippu bera það sem millinafn. Þá ber Karlotta prinsessa einnig nafnið Elísabet sem millinafn. Jane er hins vegar nafn móður James Matthews. Með þessum millinöfnum er því verið að heiðra báðar ömmurnar. 

Þetta er fimmta barnabarn Middleton-hjónanna en Katrín hertogynja á þrjú börn og Pippa á nú tvö.

mbl.is