„Vonandi fæst einhver annar en pabbi í að farða mig“

Ásta Sawang sat fyrir í fermingarauglýsingu Gallerí 17.
Ásta Sawang sat fyrir í fermingarauglýsingu Gallerí 17. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásta Sawang er að ganga í gegnum skírn og fermingu um þessar mundir. Hún hefur þurft að hafa fyrir því að fá að fermast, því hún kemur úr fjölskyldu sem er utan þjóðkirkjunnar. Ásta Sawang er fædd í Bangkok í Taílandi og ólst upp fyrstu 6 ár ævinnar þar í landi en lengst af í strandbænum Hua Hin.

Ásta á sjö systkin og er hún fimmta í röðinni. Í dag býr hún í Hveragerði ásamt föður sínum og þremur yngri systkinum, tveimur yngri bræðrum og litlu systur sem er sex ára.

Upphaflega stóð ekki til að Ásta yrði fermd þar sem foreldrar hennar eru utan þjóðkirkju og móðir hennar búddisti. Það hafði verið samkomulag hennar og pabba hennar að í stað fermingar færu þau tvö saman í fermingarferð sem var áætluð á slóðir Anne with an E/Önnu í Grænuhlíð um Prince Edward-eyju í Kanada.

Feðginin Viktor Sveinsson og Ásta Sawang.
Feðginin Viktor Sveinsson og Ásta Sawang. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin hefð fyrir fermingu í fjölskyldunni

„Þegar ég byrjaði í 8. bekk og allir félagarnir voru að hefja fermingarundirbúning ákvað ég að vilja einnig fermast en þar sem engin hefð er fyrir því í kjarnafjölskyldunni og við pabbi með önnur áform var þetta ekki auðfengið. Pabbi var ekki auðveldur viðureignar með þessa nýju hugmynd og krafðist þess að ég gerði skýrt upp hug minn gagnvart trú, Jesú Kristi og kirkjunni og ef ég væri ekki sannfærð um að eiga erindi í kirkjuna ætti ég að velja borgaralega fermingu. Ég viðurkenni að þetta var oft erfitt, pabbi vildi ræða þessi mál meira en ég hafði áhuga á og í raun vildi ég að þetta væri eins sjálfsagt hjá mér og vinkonum mínum en auðvitað er það ekki þannig því fjölskylda mín er einfaldlega öðruvísi og bakgrunnur okkar ekki alveg íslenskur.

En auðvitað hefur sterk áhrif á svona ákvörðun að vilja fylgja vinum sínum og svo er ekkert verra að fá flotta veislu og fullt af gjöfum.“

Ásta segir að pabbi hennar hafi komið á sérstökum fundum með Ninnu Sif, sóknarprestinum.

„Á fundunum ræddum við þetta vel og hún hvatti mig líka til að fá borgaralega fermingu ef ég væri ekki sannfærð um trúna. Þannig að þetta hefur verið svolítið flókið hjá mér til dæmis vegna þess að ég þarf fyrst að skírast.“

Feðginin búa í Hveragerði.
Feðginin búa í Hveragerði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið að gera hjá Ástu um þessar mundir

Ásta tók skírn þann 7. mars í almennri messu í Hveragerðiskirkju. Við vinnslu viðtalsins var Ásta enn þá að undirbúa skírnina.

„Við pabbi höfum farið og undirbúið okkur með Ninnu Sif, fengið tilsögn um hvernig athöfnin fer fram og hvað ég þarf að kunna. Það verður sunginn sérstakur skírnarsálmur og ég á að staðfesta nafn mitt. Ég hef sjálf valið mér skírnarvottana og er það næstaelsta systir mín Jintapat og Auður frænka mín.

Eftir skírnina ætlum við að hafa laufléttan hádegisverð fyrir fjölskylduna en við erum ekki að gera of mikið úr þessu því núna er svo stutt í ferminguna sjálfa.

Ég á erfitt með að segja hvort trúin eigi eftir að skipa stóran sess í mínu lífi eða ekki, ég er að læra margt nýtt núna og ég á sjálfsagt eftir að melta margt og sumt kannski á annan veg en ég get ímyndað mér í dag.

Það er svakalega mikið að gera hjá mér alla daga, fyrir utan skólann og vinina er ég í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sæki leiklistarnámskeið og mæti í félagsmiðstöðina á Bungubrekku í Hveragerði og KFUM-fundi í kirkjunni. Auk þess hef ég mikið að gera heima að hjálpa pabba með yngri systkinin og margt í heimilishaldinu en pabbi kallar mig framkvæmdastjóra fjölskyldunnar, því hef mikla þörf fyrir að skipuleggja og gera áætlanir.

Heima finnst mér frábært að baka, elda létta rétti fyrir mig og systkini mín ef pabbi er ekki heima og svo er náttúrulega heilmikill tími sem fer í símann og tölvuna auk þess sem við fjölskyldan reynum að horfa saman á sjónvarp stutta stund hvert kvöld.“

Ásta er þroskuð miðað við aldur.

„Ég hef alist upp í tveimur löndum, á mörg systkini og axla oft mikla ábyrgð heima og því finn ég mig oft í þeim aðstæðum að þurfa að taka eigin ákvarðanir og fara eigin leiðir á eigin forsendum og mér finnst það ekkert mikið mál. Ég fæddist með heilalömun sem gerir það að verkum að ég er í stanslausri sjúkraþjálfun og eftirliti svo ég haldi góðri líkamlegri færni. Það og bakgrunnur minn hafa vonandi stutt mig í að vera sjálfstæð og dálítið sterk.“

Ásta Sawang.
Ásta Sawang. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verður í fallegum kjól frá Gallerí 17

Það sem Ástu langar er að fermingarveislan verði skemmtileg.

„Fermingarveislan verður stuð, pabbi, systir mín og ég ætlum að gera mest af matnum og svo fáum við kannski hjálp frá einhverjum frændum og frænkum. Veislan verður haldin á hóteli föðursystur minnar sem heitir Hjarðarból og er hér í Ölfusinu. Við verðum með fullt af rjóma, eitthvað af mæjónesi, kransaköku og svo einnig einhver salöt og asíska rétti. Snemma um morguninn fer ég í hárgreiðslu og svo segist pabbi ætla að farða mig en vonandi fæst einhver annar í það.

Á milli fermingarinnar og veislunnar ætlum við að láta taka myndir af mér og einnig af allri fjölskyldunni. Ég keypti geggjaðan fermingarkjól í Gallerí 17.“

Ásta hefur sterka sýn þegar kemur að framtíðinni.

„Í framtíðinni stefni ég að því að læra talmeinafræði eða sálfræði. Lengi vel ætlaði ég þó að verða myndlistarmaður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert