Harry tjáir sig um móðurmissinn í barnabók

Harry Bretaprins segir að hola hafi myndast inni í honum …
Harry Bretaprins segir að hola hafi myndast inni í honum þegar móðir hans lést. AFP

Harry Bretaprins opnaði sig um móðurmissinn í formála að barnabókinni Hospital by the Hill. Bókin er ætluð börnum sem hafa misst foreldra sína vegna kórónuveirunnar. Í formálanum segir Harry að móðurmissirinn hafi skilið eftir holu inni í honum.

Bókin er eftir rithöfundinn Chris Connaughton og Fay Troote myndskreytti. Hún fjallar um barn sem á móður sem vann á spítala í heimsfaraldrinum, veiktist og lést. 

Harry missti móður sína, Díönu prinsessu, þegar hann var 12 ára gamall. „Þegar ég var lítill strákur missti ég mömmu mína. Þegar það gerðist vildi ég ekki trúa því eða taka það í sátt og það skildi eftir stóra holu innan í mér. Ég veit hvernig þér líður, og ég vil ítreka það að holan mun fyllast af ást og stuðningi með tímanum. Við tökumst öll á við sorgina á mismunandi hátt, en þegar foreldri fer til himna var mér sagt að andi þeirra, ást og minningar færu ekki með þeim. Þau eru alltaf með þér og þú getur alltaf haldið í þau. Ég hef komist að því að þetta er satt,“ skrifar Harry. 

Börn í Bretlandi sem hafa misst ástvin í heimsfaraldrinum fá bókina gefins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert