Opna umræðuna fyrir feður í fæðingarorlofi

Gunnar Bersi Björnsson og Alexander Maron Þorleifsson fjalla um föðurhlutverkið …
Gunnar Bersi Björnsson og Alexander Maron Þorleifsson fjalla um föðurhlutverkið í nýjum hlaðvarpsþáttum. Ljósmynd/Aðsend

Feðurnir Gunnar Bersi Björnsson og Alexander Maron Þorleifsson stofnuðu á dögunum hlaðvarpið Pabbaorlof. Í þáttunum ætla þeir að ræða um föðurhlutverkið á fjölbreyttan hátt. Þeir munu ræða fæðingarsögur sínar ásamt því að kynnast fæðingarsögum annarra feðra og einnig munu þeir fá sálfræðinga, uppeldisfræðinga og aðra sérfræðinga í þáttinn. 

„Við sáum hvað það var til mikið af öflugum hlaðvörpum fyrir mæður sem fjalla um þessa hluti ásamt því að þær hafa mömmuhópa sem þær geta leitað til að fá stuðning og ráð, en okkur fannst algjörlega vanta þetta fyrir feður. Þannig við ákváðum að taka málin í okkar hendur og stofna það sjálfir og vonumst eftir því að þetta verkefni okkar nái að hjálpa einhverjum,“ segir Gunnar í viðtali við mbl.is. 

Gunnar Bersi á tvö börn, Mikael Bersa sem er 6 ára og dótturina Ísabellu Ölbu sem er 3 ára. Alexander er þriggja barna faðir en hann á dæturnar Hrefnu Sif, 4 ára, og Marín Leu 2 ára, og eignaðist nýverið soninn Maron Atlas sem er 3 mánaða. Báðir fullnýttu þeir fæðingarorlofsrétt sinn með öll sín börn og sjá ekki eftir því. 

„Þetta er svo gríðarlega mikilvægur tími þar sem börnin stækka og þroskast svo mikið á þessum tíma þannig ég hvet alla sem eru að fara eignast börn að nýta þessi forréttindi að fara í fæðingarorlof og fá að eyða þessum tíma með barninu ykkar og konu, ef það á við,“ segir Gunnar.

Hvaða máli skiptir það að opna á þessa umræðu fyrir feður?

„Gríðarlega miklu máli. Við viljum vera til staðar fyrir feður og geta opnað á ýmsar erfiðar umræður og koma með upplýsingar sem geta vonandi nýst sem flestum. Við höfum t.d fylgst mikið með Andreu Eyland sem er gríðarlega öflug kona og höfundur kviknar og Þorstein V. Einarsson sem er með Karlmennskan og eru þau að gera mjög góða hluti og væri gaman að fá þau í viðtal til okkar,“ segir Gunnar. 

Gunnar segir að bæði hann og Alexander hafi viljað að þessi vettvangur hafi verið til þegar þeir fóru í sín fyrstu fæðingarorlof svo það hefði verið auðveldara fyrir þá að fræðast og hlusta á raunveruleikann hjá öðrum í svipaðri stöðu. 

Í fyrstu þáttunum, sem komu inn í gær, munu þeir gefa hlustendum tækifæri til að kynnast sér betur og fara yfir fæðingarsögur sínar. Seinna munu þeir fá til sín gesti sem segja frá sínum fæðingarsögum og upplifun af föðurhlutverkinu. 

„Einnig viljum við fá til okkar sálfræðinga svo við getum farið náið út í mikilvæg málefni eins og t.d fæðingarþunglyndi hjá feðrum sem er mjög lítið talað um og karlar þora sára sjaldan að minnast á það eða leita sér hjálpar útaf skömm og þeir vilja ekki stela athygli frá móðurinni sem er sjálf búin að ganga í gegnum ótrúlega hlut að eignast barn,“ segir Gunnar. 

„Við viljum líka tala við feður sem eru með langveik börn, að ganga í gegnum forsjárbaráttur o.s.f.r.v svo við getum heyrt þeirra hlið og upplifanir. Við viljum líka fá til okkar uppeldisfræðinga og fara yfir ýmisleg ráð sem gætu gagnast foreldrum þar sem að við erum engir sérfræðingar sjálfir og viljum nýta þetta hlaðvarp sem ferðalag til þess að fræðast meira um hvernig þetta er hjá öðrum og hvað sé hægt að gera til þess að geta sinnt þessu foreldrahlutverki ennþá betur,“ segir Gunnar.

Fyrstu tveir þættirnir af Pabbaorlof eru komnir inn á hlaðvarpsvef mbl.is sem og aðrar hlaðvarpsveitur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert