Fæstir vilja myndir af sér í fermingarkyrtli

Sirrý Klemenzdottir ljósmyndari tekur mikið af fermingarljósmyndum.
Sirrý Klemenzdottir ljósmyndari tekur mikið af fermingarljósmyndum. mbl.is/Sirrý Klemenzdóttir

Sirrý Klemenzdóttir segir fermingarbörn góð í að koma með hugmyndir að myndatökum á fermingardaginn. Gæludýr eru vinsæl á ljósmyndum í dag sem og áhugamálin. Hún hefur rekið ljósmyndastofuna Þetta stúdíó ásamt manni sínum James Hudson síðan árið 2008.

„Ég lærði ljósmyndun á Íslandi og bjó úti í Englandi í tvö ár og vann sem portrettljósmyndari í eitt og hálft ár. Fermingarmyndatökur eru stór hluti af slíkum ljósmyndum á Íslandi. Ég hef verið að taka fermingarmyndir frá því áður en ég lauk sveinsprófinu og alveg frá því ég opnaði árið 2008.“

Fermingarmyndatökur eru eitt upáhaldsmyndefni Sirrýjar.

„Einstaklingar á þessum aldri eru svo skemmtilegir, hressir og opnir fyrir alls konar skemmtilegum hugmyndum. Það sem mér finnst mestu máli skipta þegar krakkar koma í fermingarmyndatöku er að þau komi með hluti sem tilheyra áhugamálum þeirra. Sem dæmi fótboltabúninginn sinn, fiðluna eða jafnvel gæludýrið.“

Elísabet Unnur Hrólfsdóttir fékk fallegar ljósmyndir af sér á fermingardaginn.
Elísabet Unnur Hrólfsdóttir fékk fallegar ljósmyndir af sér á fermingardaginn. mbl.is/Sirrý Klemenzdóttir

Fermingarkyrtillinn á undanhaldi

Sirrý segir góða hugmynd að hafa föt til skiptanna í fermingarmyndatökunni.

„Sem dæmi uppáhaldsgallabuxurnar, hettupeysuna og fleira. Þá fær maður fallegar myndir sem gefa góðan þverskurð af lífi barnsins árið sem það fermist.“

Sirrý segir ljósmyndatökur í fermingarkyrtli á undanhaldi.

„Fæstir vilja gera eitthvað við þær myndir, eins og til dæmis stækka eða gefa í jólagjöf, þótt oftast fylgi ein kyrtilmynd með í albúminu sé óskað eftir því. Þær eru þó orðnar aðeins frjálslegri og ýmislegt skemmtilegt og fallegt hægt að gera í kyrtlinum. Annars hafa borgaralegar fermingar aukist síðustu ár og þar á kyrtillinn ekki við. Hægt er að taka mjög fallegar myndir við slík tilefni.“

Hún segir mikilvægt að hlusta á hugmyndir fermingarbarnanna.

„Ég fæ oft alls konar beiðnir um ýmislegt sem við útfærum svo í sameiningu og þannig fáum við fallegar myndir. Portrettmyndataka snýst um samvinnu á milli mín og fermingarbarnsins. Ég er opin fyrir öllu og hef meðal annars verið kölluð upp í hesthús til þess að ná myndum af fermingarbarninu með uppáhaldshestinum sínum. Fermingarmyndatakan er upplifun fermingarbarnsins sem þau hafa mjög gaman af svo mér þykir mikilvægt að þau komi í slíka myndatöku. Svo er tilvalið að skella í góðar fjölskyldumyndir eða systkinamyndir í leiðinni. Það er víst ekki á hverjum degi sem fólk fer í myndatöku. Þá mæli ég frekar með að fólk sé í venjulegum fatnaði því þá er andrúmsloftið afslappaðra. Þannig myndir eldast vel. Að sjálfsögðu er samt alltaf gaman að fá ljósmyndir af sér í spariklæðnaði.“

Það er vinsælt að taka ljósmyndir af fermingarbarninu úti í …
Það er vinsælt að taka ljósmyndir af fermingarbarninu úti í náttúrunni. mbl.is/Sirrý Klemenzdóttir

Vinsælt að hafa gæludýr

Sirrý segir mikilvægt að fólki líði vel í myndatökum.

„Til að fólki líði vel gef ég mér góðan tíma til þess að kynnast því ef þess þarf. Ég kem fram við fólk eins og ég vil að það komi fram við mig. Svo er ég frekar opin og með húmor sem ég nota í ljósmyndatökunni.

Margar bestu myndirnar eru teknar þegar fólk á síst von á því, þar sem persónuleikinn fær að njóta sín með hlátrasköllum eða skondnum augnablikum.“

Sirrý segir ljósmyndirnar í ár verða svipaðar því sem nú þegar er orðið vinsælt. Börnin séu með það sem einkennir áhugasvið þeirra.

Hún hefur myndað fyrir Dýrahjálp Íslands í meira en áratug.

„Allir gæludýraeigendur vita að gæludýrin eru mikilvægur hluti af fjölskyldunni og lífi barnsins. Ég hef

myndað fermingarbörn með kisurnar sínar, hundinn sinn, hestinn, naggrís og kanínur. Ég bíð spennt eftir gullfisknum í kúlunni.“

Mikilvægt er að leyfa fermingarbarninu að ráða þegar kemur að …
Mikilvægt er að leyfa fermingarbarninu að ráða þegar kemur að hugmyndum tengt fermingarljósmyndatökum á fermingardaginn. mbl.is/Sirrý Klemenzdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert