Laus allra mála um fimmtugt

Jakob Birgison varð faðir í fyrra. Hér heldur hann á …
Jakob Birgison varð faðir í fyrra. Hér heldur hann á Herdísi dóttur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Jakob Birgisson uppistandari varð faðir í fyrra þegar hann og sambýliskona hans, Sólveig Einarsdóttir, eignuðust dótturina Herdísi. Jakob, sem er 22 ára, segist hafa fullorðnast á þeim fimm mánuðum sem hann hefur verið faðir en það var með ráðum gert að eignast barn snemma. 

„Ég er fyrstur af okkur vinunum úr grunn- og menntaskóla. Planið hefur alltaf verið að eignast börn ungur, svo ég verði laus allra mála um fimmtugt. Það er samt alveg týpískt að það klúðrist einhvern veginn. En ég á líka töluvert af eldri vinum sem eiga alveg tvö til þrjú börn,“ segir Jakob. 

Hvernig leið þér á meðgöngunni?

„Mér leið almennt ágætlega og að sjálfsögðu hafði þetta allt saman áhrif á mig, þótt það hafi auðvitað mætt mest á Sólveigu. Ég miklaði þetta samt aldrei sérstaklega fyrir mér, enda á ég þrjú systkini og mér finnst börn eðlilegur hluti af lífinu. Er vanur hávaða og að láta öskra á mig. Merkilegast við þetta ferli þótti mér þó að fá alls konar meðgöngueinkenni; varð lyktnæmur með afbrigðum og byrjaður að vakna tvisvar til þrisvar sinnum á næturnar til að pissa og fleira í þeim dúrnum. Mér leið eins og ég gæti orðið yngsti maðurinn á Íslandi til að auglýsa SagaPro, 22 ára gamall.“

Hvernig var að vera á hliðarlínunni í fæðingunni?

„Fæðingin var nokkuð stutt, svo það var léttir. Ég var aðallega stressaður um að þetta drægist á langinn og yrði að margra klukkustunda fæðingu. Fljótlega komst ég að því að lítið gagn væri að mér, enda er minn helsti styrkleiki að blaðra um menn og málefni og þess var ekki óskað meðan á fæðingunni stóð. Sólveig stóð sig hins vegar ótrúlega vel og starfsfólk Landspítalans var almennilegt.“

Sólveig Einarsdóttir, Jakob Birgison og Herdís litla.
Sólveig Einarsdóttir, Jakob Birgison og Herdís litla. Júlía Runólfsdóttir

Hafði heimsfaraldurinn á einhvern hátt áhrif á fæðingarferlið?

„Síðustu þrjá mánuði meðgöngunnar lokaði ég mig dálítið af, svo ég yrði alveg örugglega ekki í sóttkví ef barnið skyldi koma snemma í heiminn. Ég mátti lítið vera inni á spítalanum, þó eitthvað í kringum sónarskoðun og svo var ég að sjálfsögðu viðstaddur fæðinguna sjálfa. Starfsfólk Landspítalans er, enn og aftur, ótrúlega viðkunnanlegt og gott fólk, og gerði allt sem það gat til að láta þetta ganga með hefðbundnu sniði.“

Hefur veiran haft áhrif á fjölskyldulífið?

„Það er óhætt að segja það. Við hittum færra fólk, vinnum minna og verjum meiri tíma saman. Ég er samt byrjaður að undirbúa næstu sýningu og mun prófa nýtt efni á landsbyggðinni í sumar, þannig að ég er spenntur fyrir komandi tímum.“

Hvað hef­ur komið þér mest á óvart við föður­hlut­verkið?

„Ég er töluvert betri maður og framtakssamari, fullorðnaðist. Held mér betur í rútínu og geri almennt meira gagn. Þetta gríðarmikla frelsi sem ég bjó við hefur líklega verið hamlandi. Nú vona ég bara að dóttir mín valdi mér minna tjóni en ég hef valdið foreldrum mínum, en ég var sjálfur lengst af með eindæmum hræðilegt barn.“

mbl.is