Foreldrar Jolie misstu ófætt barn

Hollywood-feðginin Jon Voight og Angelina Jolie.
Hollywood-feðginin Jon Voight og Angelina Jolie. REUTERS

Óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight, faðir Angelinu Jolie, greindi frá því að hann og fyrrverandi kona hans, Marcheline Bertrand, hefðu misst ófætt barn sitt árið 1972. Sársaukinn var mikill en Voight leikur í myndinni Roe v. Wade sem fjallar um rétt kvenna til þungunarrofs. 

Þau Voight og Bertrand voru gift á árunum 1971 til 1980. Ári eftir missinn fæddist leikarinn James Haven og árið 1975 leikkonan Angelina Jolie. „Ég og eiginkona mín misstum barn á meðgöngu. Það var mikill missir, það var mikið áfall fyrir eiginkonu mína,“ sagði Voight í viðtali við Page Six. Voight sagði missinn hafa haft mikil áhrif á konu sína. Hann sagði einnig mikla sorg hafa einkennt líf hans vegna þess hvernig meðgöngunni lauk. 

Hinn 82 ára gamli Voight er íhaldsmaður og segir að ekki megi taka á þungun af léttúð. Hann heldur því fram að hugarfar fólks hafi breyst með árunum og þungunarrof jafnvel notað á sama hátt og getnaðarvarnir. 

Málið sem myndin fjallar um er því afar umdeilt og fólkið sem stendur að myndinni ekki síður umdeilt. Nick Loeb skrifar og leikstýrir myndinni og fer jafnframt með aðalhlutverkið. Hann hefur einna helst unnið sér það til frægðar síðustu ár að reyna að fá forræði yfir fósturvísum sem hann og leikkonan Sofia Vergara létu frysta á meðan þau voru saman.  

Jon Voight.
Jon Voight. REUTERS
mbl.is