Sex ættliðir voru saman við skírn í Sandgerði

Á myndinni eru frá vinstri talið: Kristófer Máni Sigursveinsson, Stefán …
Á myndinni eru frá vinstri talið: Kristófer Máni Sigursveinsson, Stefán Þór Guðmundsson, Natan Bjarni Kristófersson, Júlía Sigurbjörg Stefánsdóttir, Guðný Nanna Stefánsdóttir og Sigursveinn Bjarni Jónsson Ljósmynd/Sara Ísfold

„Genin eru góð, í ættinni er langlífi og flest höfum við ung orðið foreldrar. Slíkt kann að skýra að sex ættliðir nái saman, sem er fátítt,“ segir Sigursveinn Bjarni Jónsson í Sandgerði. Á páskadag var sonarsonur hans borinn til skírnar í Sandgerðiskirkju og fékk nafnið Natan Bjarni Kristófersson. Sá er fæddur 11. október á síðasta ári og er því að verða sex mánaða.

Afkomendur orðnir 146

Ættarkapallinn er annars sá að faðir Natans er Kristófer Máni Sigursveinsson, fæddur 1997, nemi við Háskólann á Akureyri og búsettur þar. Faðir hans er Sigursveinn Bjarni, sem fyrr er nefndur, sölustjóri hjá Iceland Seafood, fæddur 1976. Móðir hans er Júlía Sigurbjörg Stefánsdóttir í Sandgerði, sem er fædd 1960, starfsmaður hjá snyrtivörufyrirtækinu Taramar. Faðir hennar er Stefán Þór Guðmundsson, fæddur 1939, lengi sjómaður í Sandgerði. Hann er sonur Guðnýjar Nönnu Stefánsdóttur, sem er fædd 1922, komin á 99. aldursár og heldur eigið heimili í Keflavík.

Alls eignaðist Guðný átta börn og sjö þeirra eru á lífi. Alls eru afkomendurnir orðnir 146 talsins, að Natan Bjarna meðtöldum, en Guðný er langalangalangamma hans.

Skírn var margoft frestað

„Vegna farsóttarinnar var margoft búið var að fresta skírnarathöfn. En loksins tókst þetta þegar þau Kristófer Máni, sonur minn, og Sara Ísfold Kristjánsdóttir, unnusta hans, komu frá Akureyri hingað suður í páskafrí. Þá var lag og sr. Sigurður Grétar Sigurðsson var laus,“ segir Sigursveinn Bjarni og bætir við að Natan Bjarni sé afar líkur föður sínum. Svipur sveinsins unga sé mjög í föðurættina, en drættir móðurfólksins sjáist vissulega líka.

„Skírnarathöfnin var virkilega falleg og góð stund. Hins vegar varð að gæta afar vel að öllum sóttvörnum og var farið vandlega eftir öllum þeim tilmælum sem gilda nú um stundir. Fjölskyldan litla fagnaði svo áfanganum í faðmi nánustu fjölskyldu.“

Konan sé elst á endanum

Afar sjaldgæft er að eiga barnabarnabarnabarnabarn á lífi. Til þess þurfa sex ættliðir að vera uppi á sama tíma og hefur það aðeins gerst fjórum sinnum hér á landi svo vitað sé, fyrst árið 1974. Bilið á milli kynslóða þarf að vera að meðaltali um tuttugu ár svo að dæmið gangi upp. Þá ber að hafa í hug að feður eru yfirleitt eldri en mæður – og því algengast að kona sé á endanum og elst, eins og raunin er í sögunni úr Sandgerði sem er hér að framan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »